Sport

Nýliðaval NFL-deildarinnar sýnt í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty

Stöð 2 Sport mun í kvöld sýna frá nýliðavali NFL-deildarinnar í Bandaríkjunum. Fyrsta umferð valsins fer fram í kvöld en útsending hefst á miðnætti.

Þetta er í fyrsta sinn sem að sýnt er frá nýliðavalinu hér á landi en það þykir sérstaklega spennandi í ár. Talið er að fimm leikstjórnendur verða valdir í fyrstu umferðinni en öflugir leikstjórnendur eru afar eftirsóttir í deildinni. Þeir eru Josh Rosen, Sam Darnold, Baker Mayfield, Josh Allen og Lamar Jackson.

Það eru einnig afar öflugir varnarmenn í nýliðaárganginum og þá eru miklar vonir bundnar við hlauparann Saquon Barkley sem talinn vera einn besti hlauparinn sem hefur komið inn í deildina undanfarin ár.

Eins og venjan er í nýliðavali bandarísku atvinnumannaíþróttanna er það lið sem var með versta árangur síðasta tímabils sem fær að velja fyrst. Cleveland Browns hefur átt afar erfitt uppdráttar síðustu árin og er með fyrsta valrétt í ár og reyndar þann fjórða líka, eftir skipti við Houston Texans í fyrra.

Liðin geta skipt á milli sín valréttum fyrir valið og það gerði til að mynda New York Jets. Liðið náði sér í þriðja valrétt í skiptum við Indianapolis Colts sem fékk í staðinn sjötta valrétt í fyrstu umferð, tvo valrétti í annarri umferð í ár og einn valrétt í annarri umferð á næsta ári.

Það má reikna með því að liðin skipti valréttum á milli sín í kvöld og gæti myndast mikil spenna vegna þessa.

Hér fyrir neðan má sjá stutt upphitunarmyndband fyrir útsendingu kvöldsins.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.