Erlent

NASA og ESA ætla að reyna að koma sýnum frá Mars til jarðarinnar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Reikistjarnan Mars.
Reikistjarnan Mars. Vísir/Getty
Evrópska geimstofnunin ESA og bandaríska geimvísindastofnunin NASA skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um að kanna möguleikana á tilraunum til þess að koma sýnum frá jarðvegi Mars til jarðarinnar.

Fram kemur í frétt á vef ESA að margar spennandi uppgötvanir hafi verið gerðar með hjálp geimfara á sporbaug í kringum og á yfirborði Mars, sem hafi aukið skilning fólks á plánetunni. Næsta skref væri því að koma sýnum hingað til jarðar til þess að hægt væri að greina þau á rannsóknarstofum.

Þetta verður ekki auðvelt verkefni og er talið að það þurfi að senda að minnsta kosti þrjár geimflaugar frá jörðu. Einnig þyrfti að skjóta upp geimfari frá yfirborði Mars, sem hefur aldrei áður verið gert.

Stefnt er að því að fyrsti leiðangurinn verði þannig að könnunarjeppi á vegum NASA, nái í jarðvegssýni í 31 ílát á stærð við penna árið 2020. Sýnunum verður svo komið fyrir og þau sótt síðar og flutt til jarðar. Árið 2021 myndi svo ExoMars könnunarjeppinn, sem stefnt er á að lendi á Mars árið 2021, bora tvo metra niður í jarðveginn til þess að leita að ummerkjum um líf.

Næsta verkefni væri svo að láta geimfar lenda á svipuðum slóðum og safna sýnunum saman og setja þau í ílát sem yrði skotið frá Mars. Þriðji leiðangurinn myndi svo snúast um að sækja sýnin og koma þeim til Bandaríkjanna. Þar væru sýnin sett í einangrun og svo rannsökuð af teymi alþjóðlegra vísindamanna.

 

 


Tengdar fréttir

Geimsjónauki NASA á síðustu dropunum

Kepler-geimsjónaukinn hefur fundið aragrúa fjarreikistjarna frá því að honum var skotið á loft árið 2009. Leiðrangrinum lýkur á næstu mánuðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×