Erlent

ESB bannar algengasta skordýraeitur í heimi

Kjartan Kjartansson skrifar
Býflugur er sérlega mikilvægar vistkerfinu. Þeim er talin stafa ógn af neónikótínoíðefnum.
Býflugur er sérlega mikilvægar vistkerfinu. Þeim er talin stafa ógn af neónikótínoíðefnum. Vísir/AFP
Bannað verður að nota algengasta skordýraeitur í heimi utandyra innan ríkja Evrópusambandsins frá árslokum. Ástæðan er alvarlegur skaði sem eitrið veldur býflugum sem eru nauðsynlegar til að fræva plöntur. Eitrið hefur aðeins verið flutt inn í litlu magni á Íslandi.

Neónikótínoíð, sem er taugaeitur, hefur verið tengt við ýmis konar kvilla í býflugum, þar á meðal minnistap og fækkun drottninga. Á sumum svæðum hefur býflugnastofninn hrunið og hafa sérfræðingar varað við vistfræðilegum hamförum af þeim sökum.

Aðildarríki ESB samþykktu í dag að banna þrjár tegundir neónikótínoíða utandyra. Aðeins verður leyfilegt að nota efnin í gróðurhúsum þegar bannið tekur gildi við árslok, að sögn The Guardian. Áður hafði notkun efnanna verið bönnuð innan ESB á plöntur sem laða að sér býflugur eins og repju árið 2013.

Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar hefur skordýraeyðir sem inniheldur virka efnið imídaklópríð verið fluttur inn og notaður hér á landi en þó ekki í miklu magni. Árið 2016 hafi þannig 1,7 kíló virka efninu verið sett á markað hér á landi. Sá skordýraeyðir sé bundinn þeim skilyrðum að varan sé eingöngu til notkunar í gróðurhúsum.

Hefur fundist í hunangi

Bann ESB nú byggir meðal annars á vísindaskýrslu sambandsins frá því í febrúar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að eitrið mengaði jarðveg og vatn þegar það er notað utandyra. Þannig berist það í villt blóm og nytjaplöntur. Neónikótínoíð hafa meðal annars fundist í hunangi.

Býflugur fræva þrjár af hverjum fjórum nytjaplöntum og leika þannig lykilhlutverk í matvælaframleiðslu heimsins. Hrun í býflugnastofninum hefur verið skýrt með sjúkdómum, taps búsvæða og víðtækrar notkunar á skordýraeitri sem inniheldur neónikótínoíðefni.

Uppfært 14:24 Upplýsingum Umhverfisstofnunar um notkun neónikótínoíðs á Ísland var bætt við fréttina.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×