Erlent

Vilja að spænsk yfirvöld endurskoði lög um kynferðisbrot

Sylvía Hall skrifar
Mótmælendur hafa safnast saman á götum Spánar til þess að sýna samstöðu með fórnarlambinu og krefjast breytinga.
Mótmælendur hafa safnast saman á götum Spánar til þess að sýna samstöðu með fórnarlambinu og krefjast breytinga. Vísir/Getty
Mótmæli í borginni Pamplona í norðurhluta Spánar hafa færst í aukana þar sem mótmælt er úrskurði dómstóla þar í landi yfir fimm mönnum sem voru sakfelldir fyrir hópnauðgun. Mennirnir voru dæmdir í níu ára fangelsi með tækifæri á reynslulausn eftir fimm ár. Saksóknari hafði farið fram á yfir 20 ára fangelsi yfir mönnunum.

Mótmælin hafa einnig færst til Madrid, Barcelona og Valencia eftir að dómur féll í málinu, en þetta er þriðji dagur mótmælanna. Farið er fram á lög varðandi kynferðisbrot í landinu verði endurskoðuð, en í dag er stigsmunur milli mála eftir því hvort annarskonar ofbeldi hafi verið beitt við verknaðinn. Yfirvöld í landinu hafa sagst tilbúin til að endurskoða lagasetningu í kringum kynferðisbrotamál í kjölfarið.

Mennirnir fimm, sem kalla sig úlfahópinn [the Wolf Pack], réðust á 18 ára stúlku eftir hátíðarhöld í kringum nautaat í borginni. Þeir buðust til þess að fylgja stúlkunni að bíl hennar, fóru síðan með hana í byggingu þar sem þeir réðust á hana. Árásarmennirnir tóku árásina upp á síma.

Fjöldi fólks hefur einnig sett inn færslur á Twitter undir myllumerkinu #cuéntalo, sem má þýða sem „segðu það“. Þar hefur fjöldi fólks deilt reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi til að sýna fórnarlambinu stuðning.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×