Enski boltinn

Gylfi einn af þeim tíu bestu sem ekki spilar með sex bestu liðunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gerir Everton-liðið betra.
Gylfi Þór Sigurðsson gerir Everton-liðið betra. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton, er einn af tíu bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar sem ekki spilar með einu af sex stærstu og bestu liðunum; Manchester City, Manchester United, Liverpool, Tottenham, Chelsea eða Arsenal.

Þetta er mat fótboltablaðamannsins Greg Lea sem listar upp fjórtán bestu leikmennina utan topp sex í grein fyrir fótboltatímaritið virta Four Four Two. Gylfi hefur áður verið sagður einn af allra bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar utan efstu liðanna.

Gylfi er í tíunda sæti á þessum lista en í umsögn um hann segir: „Sigurðsson hefur ekki gengið of vel á þessari leiktíð. Íslenski landsliðsmaðurinn hefur skorað nokkur frábær mörk en ekki alveg staðið undir 50 milljóna punda verðmiðanum.“

Lea bætir við að þegar Gylfi er upp á sitt besta er hann léttilega einn allra besti leikmaðurinn fyrir utan hóp efstu sex stærstu og bestu liða ensku úrvalsdeildarinnar.

„Spyrnutækni hans í föstum leikatriðum er ein sú besta í deildinni og hann getur líka skorað úr opnum leik. Hann gerir kannski ekki alveg nóg til að vera leikmaður sem gæti byrjað í bestu liðum deildarinnar en Everton er klárlega verra lið án hans,“ segir um Gylfa Þór.

Everton-mennirnir Riyad Mahrez og Jamie Vardy eru í efstu tveimur sætunum á listanum og Wilfried Zaha í þriðja sæti. Ryan Bertrand, bakvörður Southampton, er í níunda sæti, einu sæti á undan Gylfa Þór Sigurðssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×