Körfubolti

Jóhann og Jóhann þjálfa Grindavíkurliðin næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. vísir/ernir
Grindvíkingar hafa gengið frá þjálfaramálum meistaraflokka sinna fyrir næsta tímabil og þar eru nafnar á ferðinni.

Jóhann Þór Ólafsson mun halda áfram með meistaraflokk karla og halda áfram því starfi sem þar hefur verið í gangi.

„Einhverjar breytingar eru fyrirsjáanlegar á leikmannahópnum og er full vinna í gangi með þau mál,“ segir á fésbókarsíðu Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Jóhann Þór Ólafsson er því að fara að hefja sitt fjórða ár með Grindavíkurliðið en undir hans stjórn hefur liðið unnið 35 af 66 deildarleikjum (53 prósent) og 8 af 19 leikjum í úrslitakeppni (42 prósent).

Jóhann fór með Grindavíkurliðið alla leið í lokaúrslitin í fyrra en í ár datt liðið út í átta liða úrslitunum án þess að vinna leik í úrslitakeppninni.

Hjá meistaraflokki kvenna hefur Jóhann Árni Ólafsson verið ráðinn þjálfari og mun hann taka við af Ólöfu Helgu Pálssdóttur.

„Kkd UMFG bindur miklar vonir við ráðningu Jóhanns Árna og um leið þökkum við Ólöfu Helgu fyrir hennar framlag í vetur og óskum henni velfarnaðar,“ segir á fésbókarsíðu Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Jóhann Árni Ólafsson þekkir vel til yngri leikmanna Grindavíkur enda hefur hann unnið flott starf í yngri flokkum félagsins undanfarin ár.

Grindavíkurkonur eru í 1. deild kvenna en þær töpuðu á móti KR í undanúrslitum úrslitakeppninnar á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×