Körfubolti

Nat-vélin spilar ekki áfram í Njarðvík næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Ágúst Nathanaelsson.
Ragnar Ágúst Nathanaelsson. Vísr/Andri Marinó
Ragnar Ágúst Nathanaelsson spilar ekki með Njarðvík í Domino´s deild karla næsta vetur. Njarðvíkingar tilkynntu í dag að samstarfi Njarðvíkur og miðherjans verði ekki áframhaldið á næstu leiktíð.

Ragnar snéri aftur í Domino´s deildina í vetur eftir ársdvöl á Spáni. Hann valdi Njarðvík en það var ekki eina félagið sem vildi fá hann síðasta sumar.

Ragnar var með 8,0 stig og 8,0 fráköst að meðaltali í leik í Domino´s deildinni í vetur sem eru mun lægri tölur en þegar hann spilaði með liði Þórs í Þorlákshafnar veturinn 2015-16. Þá var Ragnar með 13,0 stig og 11,9 fráköst að meðaltali í leik.

Einar Árni Jóhannsson er tekinn við Njarðvíkurliðinu og hann þjálfaði Ragnar í Þorlákshöfn fyrir tveimur árum. Þeir vinna hinsvegar ekki aftur saman næsta vetur.

„Ákvörðun Njarðvíkur og Ragnars var sameiginleg og skilja leiðir í bróðerni. Undirbúningur fyrir næstu leiktíð er þegar hafinn í Ljónagryfjunni og greinum við frá frekari gangi mála um leið og unnt er,“ segir í frétt á heimasíðu Njarðvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×