Enski boltinn

Fleiri fréttir af ungum framherjum Manchester United á förum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Martial.
Anthony Martial. Vísir/Getty
Tveir ungir framherjar Manchester United gætu verið á förum frá félaginu ef marka má nýjustu fréttirnar frá Old Trafford.

Anthony Martial er sagður hafa hafnað nýjum fimm ára samningi við lið Manchester United en Martial hefur gengið illa að vinna sér fast sæti í byrjunliði United-liðsins.

Fréttir af Martial eru bæði í frönskum og enskum blöðum í morgun en það var Marcus Rashford sem átti sviðljósið í gær. Rashford vill líka komast annað eftir að tækifærin hafa minnkað talsvert hjá þessum ungum landsliðsmönnum.

Framtíð þessara tveggja ungu framherja hjá Manchester United virðist því vera í mikilli óvissu þar sem það lítur út fyrir að Jose Mourinho vilji gera breytingar á framherjahópi sínum í sumar. Því heldur Independent að minnsta kosti fram.





RMC Sport í Frakklandi segir frá því að Martial hafi ekki viljað skrifa undir nýjan fimm ára samning en Anthony Martial, sem er aðeins 22 ára gamall, hefur spilað með Manchester United frá 2015.

Í fréttinni frá Fraklandi er Martial sagður óánægður með lítinn spilatíma og að hann hafi marga aðra möguleika því mörg stór félög í Evrópu hafa áhuga á honum.

Koma Alexis Sanchez í janúar hafi sett hans stöðu í uppnám alveg eins og hjá Marcus Rashford. Martial er samt með samning út næsta tímabil en United er líklegt til að selja hann takist félaginu ekki að gera við hann nýjan samning.

Martial er með 11 mörk og 10 stoðsendingar á þessu tímabili en spilatími hans hefur hrunið síðustu vikur eða síðan að Sílemaðurin kom frá Arsenal.

Félögin sem eru sögð vera á eftir Martial eru lið eins og Paris Saint Germain, Juventus, Tottenham og Atlético de Madrid.





Í frétt Independent er meira skrifað um að Jose Mourinho ætli sér að hreinsa til í framherjahópnum og að Martial vilji helst vera áfram.

Mourinho er víst ekki sáttur við óstöðugleika Martial en portúgalski stjórinn hefur nú reyndar ekki gefið franska framherjanum alltof mörg tækifæri til að ná upp þessum stöðugleika þar sem leikmaðurinn er alltaf inn og út úr byrjunarliðinu. Upp á síðkastið hefur hann þó verið út í kuldanum. 

Síðasti leikur Anthony Martial fyrir Manchester United var í bikarleiknum á móti Brighton og sá leikur fór fram í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×