Erlent

Einn leiðtoga Repúblikanaflokksins sækist ekki eftir endurkjöri

Kjartan Kjartansson skrifar
Paul Ryan hefur verið á meðal helstu leiðtoga repúblikana síðustu árin.
Paul Ryan hefur verið á meðal helstu leiðtoga repúblikana síðustu árin. Vísir/AFP
Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og einn helstu leiðtoga Repúblikanaflokksins, ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri í haust. Búist er við því að Ryan tilkynni starfssystkinum sínum um þessa ákvörðun sína í morgun.

Axios greindi fyrst frá ákvörðun Ryan og vitnaði til heimildarmanna sem standa þingforsetanum nærri. Fréttamenn annarra miðla hafa síðan fengið fregnirnar staðfestar frá innsta hring Ryan. Hann bætist þá í stækkandi hóp sitjandi þingmanna flokksins sem ætla að hætta á þingi.

Repúblikanar standa frammi fyrir erfiðum þingkosningum í nóvember en þeir eru nú með meirihluta í báðum deildum þingsins. Þá verður kosið um öll sæti í fulltrúadeildinni og þriðjung sæta í öldungadeildinni. Skoðanakannanir hafa bent til þess að demókratar gætu náð meirihluta í fulltrúadeildinni. Ástæðan er fyrst og fremst talin gríðarlega óvinsældir Donalds Trump forseta.

Vegna þess hvernig repúblikanar hafa dregið upp kjördæmamörk í sumum ríkjum Bandaríkjanna gætu repúblikanar enn haldið meirihluta í fulltrúadeildinni þrátt fyrir að demókratar ynnu meirihluta atkvæða á landsvísu með nokkurra prósentustiga mun.

Ryan á hins vegar ekki að hafa hugnast að sitja í minnihluta á þinginu eða með nauman meirihluta. Hann á að hafa viljað stíga til hliðar eftir að honum tókst að fá umfangsmiklar skattkerfisbreytingar samþykktar í desember. Starf hans hafi reynt á þolrifin, ekki síst vegna Trump forseta. Eins hefur hópur harðlínufrjálshyggjumanna sem kallar sig Frelsisþingflokkinn gert forystu repúblikana lífið leitt í fulltrúadeildinni síðustu árin.

Heimildarmenn Axios útiloka ekki að Ryan reyni aftur fyrir sér í forsetaframboði á næstu árum. Hann var varaforsetaefni Mitt Romney í forsetakosningunum árið 2012.

Embætti forseta fulltrúadeildarinnar er eitt það valdamesta í bandarísku stjórnkerfi. Þingforsetinn er til dæmis annar í röðinni að taka við embætti forseta á eftir varaforsetanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×