Handbolti

Hrafnhildur: Stóru nöfnin fá að taka fleiri skref í deildinni

Einar Sigurvinsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV.
Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV. vísir/anton brink
„Bara mjög leiðinlegt. Nú er bara að vera í fýlu í mánuð,“ sagði Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, en hún var hreint ekki sátt eftir tap liðsins gegn Fram í kvöld. Sigur Fram tryggði þeim sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil Olís-deildar kvenna á kostnað ÍBV.

„Við spilum frábæran fyrri hálfleik og lítum bara virkilega vel út. Seinni hálfleikur, ég veit það ekki, við urðum minna áreiðanlegar en við vorum í fyrri hálfleik.“

Hrafnhildur er ekki þekkt fyrir að kvarta yfir dómurum leikja í vetur en í kvöld gat hún ekki setið á sér.

„Mér fannst dómgæslan halla virkilega á okkur í þessum leik. Við erum að fá tvær mínútur fyrir brot sem þær eru stöðugt með og ekki litið við. Við erum reknar tvisvar eða þrisvar útaf fyrir það, en ekki þær.“

„Þær tóku svona fimmtán sinnum skref í leiknum. En ég meina, stóru nöfnin fá að taka fleiri skref í deildinni, það er bara þannig. Á meðan fengum við á okkur skref, í eina skiptið sem við tókum skref í leiknum. Þannig að mér fannst virkilega halla á okkur í dag.

„Ég nenni örugglega ekki að horfa á þennan leik aftur en ef ég myndi gera það gæti ég örugglega klippt til fullt af atriðum.“

ÍBV var að spila öflugan varnaleik stærstan hluta leiksins en það fór að halla undan honum síðasta korterið. Aðspurð hvort leikurinn hafa tapast á síðustu fimmtán mínútunum var Hrafnhildur ekki viss.

„Já örugglega, eða ég bara veit það ekki. Þetta er eiginlega bara allt í þoku. Ég get ekki hugsað eða talað eða neitt. Ég er bara ógeðslega fúl,“ sagði Hrafnhildur að lokum, að vonum vonsvikin með að lið hennar sé komið í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×