Körfubolti

Westbrook breyttist í besta frákastara deildarinnar í lokaleikjunum og er sá fyrsti með tvö þrennutímabil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/AP
Russell Westbrook tók 20 fráköst í lokaleik Oklahoma City Thunder í nótt og sá með því til þess að hann var með þrennu að meðaltali annað tímabilið í röð.

Russell Westbrook skoraði reyndar bara sex stig þegar Oklahoma City Thunder vann Memphis Grizzlies 137-123 í lokaleik deildarkeppninnar og tryggði sér fimmta sætið í Vesturdeildinni en hann var með nýtt persónulegt met í fráköstum og gaf síðan 19 stoðsendingar.

Oscar Robertson var í rúma hálfa öld sá eini sem hafði verið með þrennu að meðaltali í leik á NBA-tímabili en nú hefur Russell Westbrook náð því tvö tímabil í röð.





Russell Westbrook þurfti að taka 34 fráköst í síðustu tveimur leikjum sínum til að ná þrennu meðaltalinu og hann náði 38 fráköstum í þessum tveimur leikjum. Það var fagnað gríðarlega í höllinni þegar hann náði frákastinu sem tryggði þrennumeðaltalið.

Russell Westbrook endar tímabilið með meðaltöl upp á 25,4 stig, 10,0 fráköst og 10,3 stoðsendngar. Á tímabilinu í fyrra var hann með 31,6 stig, 10,7 fráköst og 10,4 stoðsendingar að meðaltali.

Westbrook var „bara“ með 9,4 fráköst að meðaltali í 57 leikjum sínum fyrir úrslitakeppni en hann hækkaði það upp í 11,7 fráköst í leik í síðustu 23 leikjum sínum og náði með því meðaltalinu.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×