Enski boltinn

Manchester United getur ekki stækkað Old Trafford eins og Liverpool gerði með Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Bobby Charlton stúkan á Old Trafford.
Sir Bobby Charlton stúkan á Old Trafford. Vísir/Getty
Manchester United gæti stækkað Sir Bobby Charlton stúkuna á Old Trafford en allt bendir til þess að þeir láti ekki verða að því.

Manchester United mun ekki stækka heimavöllinn sinn Old Trafford í næstu framtíð ef marka má frétt Simon Stone á BBC í dag.

Old Trafford er í dag stærsti leikvangur ensks félagsliðs en hann tekur rúmlega 73 þúsund í sæti.

Forráðamenn Manchester United þurftu að fækka aðeins sætunum á dögunum til að búa til betra aðgengi fyrir fatlaða. Áður komust fyrir rétt tæplega 76 þúsund manns.

Manchester United hefur stækkað Old Trafford völlinn á síðustu áratugum og það var fjölgað síðast um átta þúsund sæti milli júlí 2005 og maí 2006.

Það er pláss til að stækka Sir Bobby Charlton stúkuna en það er stúkan þar sem varamannabekkirnir og heiðursstúkan er. Það eru til plön sem myndu þýða stækkun upp í 88 þúsund manna völl þar sem stærsta viðbótin kæmi í umrædda stúku.

Tottenham og Chelsea eru að stækka við sig og geta á meðan spilað heimaleiki sína á Wembley-leikvanginum. Manchester United hefur aftur á móti engan slíkan valkost fari félagið í framkvæmdir við Old Trafford.

Framkvæmdir við Sir Bobby Charlton stúkuna þykja það flóknar í framkvæmd að það þykir ekki vera raunhæft að fara í þær á næstunni. Liverpool náði að stækka stúku á Anfield án þess að hætta að spila á vellinum en það er ekki raunhæfur möguleiki fyrir Manchester United.

Eitt af stóru vandamálinum við að stækka Sir Bobby Charlton stúkuna tengjast einnig lestarteinunum sem eru fyrir aftan hana auk húsanna upp við völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×