Golf

Ólafía Þórunn á næstversta skorinu á fyrsta hring

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/Getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir byrjaði skelfilega á Lotte meistaramótinu á LPGA mótaröðinni en það fer fram á Hawaiieyjum.

Ólafía Þórunn lék fyrstu átján holurnar á níu höggum yfir pari og var þetta næstversta skorið hjá keppendum mótsins á fyrsta hring.

Ólafía Þórunn fékk sjö skolla og tapaði þar að auki þremur höggum á einni holu. Hún fékk tvisvar sinnum skolla á þremur holum í röð.

Ólafía Þórunn hóf leik á tíundu holu og var á pari, með einn fugl og einn skolla, eftir sex fyrstu holurnar. Þá fór heldur betur að halla undan færi.

Ólafía fékk sex skolla á næstu sjö holum og endaði síðan á því að tapa þremur höggum á sjöttu holunni. Hún var þar með komin níu högg yfir parið. Ólafía paraði síðustu þrjár holurnar en tókst ekki að bæta skorið sitt.

Lélegasta skorið á fyrsta deginum var +10 og var okkar kona því á næstversta skorinu á fyrsta hring. Hún er í 137. til 141. sæti.

Mótið á Hawaiieyjum er það sjötta á þessu tímabili hjá Ólafíu á sterkustu mótaröð heims í kvennaflokki. Ólafía hefur komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur mótum á þessu tímabili og besti árangur hennar er 24. sætið.

Ólafía Þórunn keppti líka á þessu móti á Hawaii í fyrra. Hún lék þá á sjö höggum yfir pari samtals (76-75) og komst ekki í gegnum niðurskurðinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.