Körfubolti

Brynjar Þór: Læt ekki nokkrar hræður hafa áhrif á mig

Anton Ingi Leifsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR gefur lítið fyrir orð Ívars Ásgrímssonar um að Brynjar hafi viljandi slegið Emil Barja í andlitið í leik Hauka og KR í gærkvöldi.

Emil blóðgaðist í baráttunni við Brynjar í leiknum í gær og margir vildu meina að högg Brynjars hafi verið viljaverk. Hann gefur lítið fyrir þau ummæli Ívars að þetta hafi verið viljandi.

„Hann verður að horfa á sína eigin leikmenn. Kristófer Acox var blóðgaður í gær og ef menn ætla að fara út í eitthvað svona þá er hægt að týna til atvik í öllum leikjum þar sem er barátta og mikið undir,” sagði Brynjar í samtali við Hjört Hjartarson í Akraborginni.

„Ég held að þetta tengist því að þetta sé Brynjar Þór Björnsson sem gerir þetta en ekki einhver annar. Ef að Jón Jónsson, nýliði eða leikmaður sem hefði verið í meistaraliði síðustu ára þá hefði umfjöllunin verið enginn,” en var brotið viljandi?

„Nei. Þeir sem horfa á þetta aftur sjá að boltinn er í lausu lofti. Það eru tvær mínútur eftir og við erum tveimur stigum undir. Þetta er spurning um að ná sóknarfrákasti eða að fara í vörn. Ég reyni að slá í boltann, hitti ekki boltann og fer í andlitið á Emil.”

„Svona hlutir gerast og það er partur af leiknum. Að menn vilji meina að þetta sé viljandi er galið. Ég var hissa þegar ég sá að þetta var komið inn á Vísi eftir leik. Ef þetta myndi særa mig, þessi umfjöllun sem tengist mér og mínu nafni, þá væri ég hættur í körfubolta,” sem segist vera klár í leikinn á laugardaginn.

„Já, ég læt ekki nokkrar hræður hafa áhrif á mig,” sagði Brynjar kokhraustur að vanda.

Nánar er rætt við Brynjar í sjónvarpsglugganum efst í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×