Handbolti

Það mun ekki skapast vinnufriður ef Arnar verður áfram

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnar Gunnarsson hefur stýrt sínum síðasta leik hjá Fjölni.
Arnar Gunnarsson hefur stýrt sínum síðasta leik hjá Fjölni. vísir/eyþór
Fjölnir sendi frá sér yfirlýsingu í hádeginu þar sem fram kemur að Arnar Gunnarsson muni láta af starfi sem þjálfari karlaliðs félagsins í handknattleik.

Arnar hefur þjálfað Fjölnisliðið í fjögur ár og gekk sérstaklega mikið á síðastliðin vetur. Þá var Arnar rekinn af formanninum sem síðar kom í ljós að hafði ekki stuðning stjórnar til þess að reka Arnar. Hann hélt því áfram með liðið. Einstök uppákoma í íslensku íþróttalífi.

Ekki virðist hafa tekist að bera klæði á vopnin því í yfirlýsingu Fjölnis kemur fram að það sé mat formanns að ekki muni skapast vinnufriður fyrir þjálfarann, liðið og stjórnina ef Arnar verði áfram. Því skilja leiðir.

Yfirlýsing Fjölnis í heild sinni:

Handknattleiksdeild Fjölnis og Arnar Gunnarsson þjálfari meistaraflokks karla hafa komist aðsamkomulagi um að ekki verði áframhald á samstarfi þeirra.

Arnar hefur verið þjálfari mfl. karla undanfarin fjögur ár og náð góðum árangri með liðið. Aðstæður hafa hins vegar verið erfiðar og þá sérstaklega síðasta keppnistímabil þar sem liðið hefur ekki haftsambærilega aðstöðu til æfinga við önnur úrvalsdeildarlið og samstarf fyrri stjórnar og þjálfarans ekki verið ásættanlegt.

Það er mat núverandi formanns að ekki muni skapast vinnufriður fyrir þjálfarann, liðið né nýja stjórn verði samningur Arnars endurnýjaður. Varð það því niðurstaðan að hagsmunum þjálfarans og félagsins væri best borgið með því að leiðir skilji.

Stjórn handknattleiksdeildar Fjölnis þakkar Arnari fyrir vel unnin störf á umliðnum árum og óskar honum

velfarnaðar í sínum störfum í framtíðinni.

Jarþrúður H. Jóhannsdóttir,

formaður handknattleiksdeildar Fjölni


Tengdar fréttir

Arnar: Aðrir en ég sem verða að leysa þetta mál

"Mér fannst lokastaðan aðeins of stór, en þetta er langbesta lið deildarinnar. Margt sem við reyndum gekk upp, en þeir eru með bestu vörnina, eru rútíneraðir og vel þjálfaðir svo við vissum að þetta yrði krefjandi,” sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, eftir tólfa marka tap gegn FH í Olís-deild karla í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×