Enski boltinn

Allardyce: Rooney þarf að skora meira

Einar Sigurvinsson skrifar
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton.
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton. Vísir/Getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, segir að Wayne Rooney þurfi að leita meira inn á vítateig andstæðinganna og skila fleiri mörkum fyrir liðið.

Allardyce og Rooney ræddu saman eftir leik Everton við Liverpool í síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar, en Rooney brást illa við þegar honum var skipt af velli á 57. mínútu. Leiknum lauk með 0-0 jafntefli. Allardyce hefur sagt hann skilji hegðun Rooney í kjölfar skiptingarinnar vel og hann hafi ekkert út á hana að setja.

„Með sína reynslu ætti hann að vera neðar á vellinum og skapa mörk en mér finnst að hann þurfi líka að fara oftar inn í teiginn,“ sagði Allardyce um Rooney.

Rooney er markahæsti leikmaður Everton með 11 mörk, þar af þrjú af vítapunktinum. Honum hefur hins vegar ekki tekist að skora úr opnum leik síðan 13. desember.

„Rooney er eini leikmaðurinn okkar sem nær í tveggja stafa tölu í markaskorun og það er út af vítum. Þú kemst ekki í Evrópukeppni nema að þú sért að minnsta kosti með tvo leikmenn í tveggja stafa tölu, það hefur verið vandamál á þessu tímabili,“ sagði Allardyce.

Næstmarkahæsti leikmaður Everton á tímabilinu er Oumar Niasse með átta mörk en Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað sex mörk.

Everton fer til Wales í dag þar sem liðið mætir Swansea. Everton situr sem stendur í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 41. stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×