Þrjú mörk dæmd af West Ham í ótrúlegum seinni hálfleik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leik liðanna fyrr í vetur.
Úr leik liðanna fyrr í vetur. vísir/getty
Fimm mörk voru skoruð í 1-1 jafntefli West Ham og Stoke í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. West Ham kom boltanum þrisvar í netið án þess að dæmt væri mark.

Eftir atvikalausan fyrri hálfleik kom Marko Arnautovic boltanum framhjá Jack Butland og í mark Stoke á 56. mínútu. Hann var hins vegar dæmdur rangstæður.

Aðeins tíu mínútum seinna skoraði West Ham aftur, og aftur var markið dæmt af vegna rangstöðu og aftur var það Arnautovic sem var sökudólgurinn. Í þetta skipti átti Edimilson Fernandes skotið í markið, en Arnautovic var í rangstöðu þegar skotið átti sér stað og dæmdi aðstoðardómarinn markið af.

Fyrsta löglega mark leiksins var gestanna í Stoke. Joe Hart varði frá Xherdan Shaqiri en frákastið lenti við fætur Peter Crouch aðeins nokkrum metrum frá marklínunni og framherjinn stóri lét tækifærið ekki framhjá sér fara. Stoke komið yfir á 80. mínútu.

Varamaðurinn Andy Carroll skoraði jöfnunarmark West Ham í sínum fyrsta leik síðan í janúar. Hann skoraði laglegt mark eftir sendingu Aaron Cresswell og jafnaði fyrir heimamenn á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.

West Ham virtist hafa tryggt sér sigurinn í uppbótartíma þegar Javier Hernandez kom boltanum í netið en Michael Oliver dæmdi aukaspyrnu á Andy Carroll í undirbúningi marksins svo það fékk ekki að standa.

Ótrúlegum seinni hálfleik lauk með 1-1 jafntefli, vonbrigði fyrir Stoke sem þurfti á stigunum þremur að halda í fallbaráttunni, en stuðningsmenn West Ham eru að öllum líkindum á því að þeirra menn hafi verðskuldað að minnsta kosti eitt stig eftir að hafa komið boltanum í netið fjórum sinnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira