Viðskipti

Vilja að álit vegna sjókvía í Ísafjarðardjúpi standi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Umhverfisstofnun drót til baka álit sitt um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi þegar fyrirtækið sem sótti um leyfið kvaðst vera með nýjar upplýsingar.
Umhverfisstofnun drót til baka álit sitt um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi þegar fyrirtækið sem sótti um leyfið kvaðst vera með nýjar upplýsingar.
Þann 4. apríl síðastliðinn tilkynnti Skipulagsstofnun að hún legðist gegn eldi á allt að 6,800 tonnum af frjóum laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi, sem fyrirtækið Háafell hefur áformað.

Skömmu eftir að álit stofnunarinnar var lagt fram, var það dregið til baka, að beiðni Háafells, þar sem fyrirtækið hyggst leggja fram frekari upplýsingar um framkvæmdina.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir að álitið ætti að standa enda hafi niðurstaða þess verið afgerandi. Auk þess hafi Landssamband veiðifélaga ekki fengið aðgang að álitinu en félagið hefur nú óskað þess.

„Svo virðist vera að þeir sem voru fylgjandi framkvæmdinni hafi fengið álitið afhent en ekki við sem mótmæltum henni,“ segir Jón Helgi en landssambandið hefur ritað Skipulagsstofnun bréf þar sem óskað er eftir því að sambandið fái álitið afhent.

„Við gerum líka athugasemdir við það að ef að menn sjái óhagstætt álit sé bara hægt að draga það til baka á grunni þess að menn séu með nýjar upplýsingar. Maður veltir því fyrir sér hvort að ferlið sé þá þannig að ef manni hugnast ekki niðurstaðan sé bara hægt að koma með nýjar upplýsingar til að breyta henni. Við teljum að það muni grafa undan trausti á því ferli sem er þarna í gangi,“ segir hann.

Af þeim glefsum sem Jón Helgi hefur séð úr álitinu virðist það nokkuð afgerandi gegn sjókvíaeldi í djúpinu. Að öðru leiti hefur Landssamband veiðifélaga ekki fengið að sjá álitið þrátt fyrir að vera umsagnaraðilar.

„Það er mjög bagalegt þegar hagsmunaaðilar fái ekki að vita upplýsingar sem eru á floti um málið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×