Innlent

Lögreglan hafði afskipti af nemanda sem hét því að „skjóta upp skólann sinn“

Birgir Olgeirsson skrifar
Skólameistari Fjölbrautaskólans segir um strákapör að ræða og viðbrögð lögreglu hafi verið til fyrirmyndar.
Skólameistari Fjölbrautaskólans segir um strákapör að ræða og viðbrögð lögreglu hafi verið til fyrirmyndar.
Lögreglan hafði afskipti af nemenda við Fjölbrautaskólann í Ármúla í morgun eftir að hann hafði sett færslu á Facebook-síðu sína í gærkvöldi þar sem hann hét því að „skjóta upp skólann sinn“ ef hann fengi eitt „læk“ við færsluna.

Greint var fyrst frá málinu á vef Morgunblaðsins en Ólafur H. Sigurjónsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, segir í samtali við Vísi að lögreglan hafi mætt að eigin frumkvæði í skólann í morgun og rætt við drenginn.

Ólafur H. Sigurjónsson skólameistari.Vísir/Anton Brink
„Það kom hérna óeinkennisklæddur lögreglumaður og hafði samband við mig. Nemandinn var í skólanum og var hérna fyrir utan,“ segir Ólafur.

Hann segir óeinkennisklædda lögreglumanninn hafa farið með drenginn út úr skólanum og þar mættu honum tveir einkennisklæddir lögreglumenn sem fóru með drenginn niður á lögreglustöð. Allt hafi það verið gert með frið og spekt.

Ólafur segir bæði sig og lögreglu vera sammála að um strákapör væri að ræða. „En sjálfsagt að taka allt svona alvarlega,“ segir Ólafur.

Hann segir lögreglumenn hafa gert drengnum grein fyrir alvarleika málsins. „Og viðbrögðin lögreglu mjög flott að mínu mati.“

Ólafur gerir ráð fyrir að rætt hafi verið foreldra drengsins þar sem hann er á átjánda aldursári. Samkvæmt vinnureglum verið haft samband við barnavernd vegna málsins.

Hann segir drenginn ekki hafa orðið uppvís að einhverju misjöfnu áður í skólanum. „Þetta kom mér á óvart að það væri þessi drengur. Þetta var bara einhver fíflagangur en viðbrögð lögreglu fín.“

Hann segist ætla að ræða við drenginn á morgun en ekki liggur fyrir hvort honum verði vísað tímabundið úr skóla vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×