Erlent

Þegar 11 þúsund lífsýni úr nauðgunarmálum dúkka upp í vöruskemmu í Detroit

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Árið 2009 uppgötvuðu fulltrúar saksóknaraembættisins í Wayne sýslu í Detroit um 11 þúsund sett hönnuð til að taka lífsýni úr fórnarlömbun nauðgana í yfirgefinni vöruskemmu. Öll sýnin voru innsigluð sem þýddi að á bak við hvert og eitt þeirra var fórnarlamb nauðgunar. Ef að lífsýnin eru innsigluð þýðir það að þau hafa aldrei verið opnuð og rannsökuð í tengslum við glæpina sem þau tengjast. 

Vöruskemman tilheyrði lögreglunni í Detroit, ekki formleg geymsla undir sönnunargögn, og kom embættismönnum saksóknaraembættisins í opna skjöldu. Robert Spada, fulltrúi embættisins, var einn þeirra sem með var í för þegar sýnin uppgötvuðust en samkvæmt vitnispurði hans voru settin út um allt eins og hráviði, opnir gluggar voru á vöruskemmunni og fuglar flugu um. 

Eftir að yfirvöld hófu að rannsaka lífsýnin var hægt að bera kennsl á fjölda gerenda og hægt hefði verið að koma í veg fyrir frekari glæpi.Mynd/skjáskot
Í kjölfarið var ljóstrað upp um fjölmörg sambærileg tilfelli í nærri öllum fylkjum Bandaríkjanna þar sem möguleg sönnunargögn í nauðgunarmálum söfnuðu ryki án þess að þau kæmu að notum í rannsókn viðkomandi máls. Alls hafa fundist um 225 þúsund innsigluð lífsýni víða um Bandaríkin og telja stjórnvöld að þau geta verið allt að 400 þúsund.

Þetta er inntakið í heimildarmyndinni I am Evidence sem frumsýnd var í Bandaríkjunum í gær. Myndin undirstrikar það hversu neðarlega kynbundið ofbeldi hefur verið á forgangslista lögreglu- og saksóknaraembætta í Bandaríkjunum. Hún er þá enn einn vitnisburðurinn um það kerfislega misrétti sem ríkir gagnvart konum, sér í lagi svörtum konum af lægri stétt.

Kym Worthy, saksóknari í Wayne sýslu, hefur verið í forsvari í baráttunni fyrir því að lífsýnin verði rannsökuð.Mynd/skjáskot
Í kjölfar þessara uppljóstrana hefur fjöldi fólks barist fyrir því að þessi lífsýni verði tekin til rannsókna og málin sem þeim tengjast opnuð á nýjan leik. Mörg málanna jafnvel áratuga gömul. 

Kym Worthy, saksóknari í Wayne sýslu, hefur farið fyrir baráttunni í Detroit og er eitt andlita baráttunnar á landsvísu í Bandaríkjunum. Hún hefur náð þeim áfanga að láta rannsaka rúmlega 1600 lífsýni af þeim 11 þúsund sem fundust í Detroit. Afleiðing þess er að yfirvöld hafa getað borið kennsl á fjölda gerenda í áður óupplýstum málum. Þessi sömu lífssýni hafa þá komið upp í miðlægum gagnagrunnum og varpað ljósi á önnur óupplýst mál á landsvísu þar sem síbrotamenn hafa verið að verki. Í þeim tilfellum var það ekki óalgengt að gerandinn hélt áfram glæpum sínum eftir að lífssýni var tekið af fórnarlambi og sett í geymslu til að safna ryki.

Heimildarmyndin I am Evidence er áhrifaríkur og átakamikill vitnisburður um kerfisbundið misrétti í Bandaríkjunum og enn ein áminningin um það hvernig samfélagið lítur undan í málum er varða kynbundið ofbeldi. Hún verður sýnd á Stöð 2 klukkan 22:20 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×