Körfubolti

Martin stigahæstur í sigri │ Spennusigur hjá Hauki Helga

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Martin í baráttunni fyrr í vetur.
Martin í baráttunni fyrr í vetur. vísir/getty
Martin Hermannsson fór á kostum í sigri Chalons-Reims á Le Portel í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Hann var stigahæstur á vellinum með 27 stig.

Þá átti hann einnig 6 stoðsendingar og 4 fráköst. Chalons-Reims vann leikinn með átta stigum, 83-75, eftir að hafa verið 42-36 yfir í hálfleik.

Ekki fór eins mikið fyrir Hauki Helga Pálssyni í liði Cholet sem mætti Antibes á útivelli.

Haukur var í byrjunarliði Cholet eins og svo oft áður en hann gerði 9 stig og gaf tvær stoðsendingar. Antibes byrjaði leikinn mun betur og vann fyrsta leikhluta með sex stigum, 25-19. Cholet náði aðeins að koma til baka en það var ekki fyrr en á síðustu metrunum að gestirnir komust yfir.

Loka mínúturnar voru hörku spennandi og þriggja stiga karfa Jonathan Rousselle kom Cholet yfir þegar tíu sekúndur lifðu af leiknum. Heimamenn náðu ekki að svara og naumur sigur Cholet í höfn, 74-76.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×