Erlent

Fékk átta ára dóm fyrir aðild að stóra Instagram-kókaínmálinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Melina Roberge (t.v.) og Isabelle Lagace sáttar með lífið á ferð sinni um heiminn áður en þær voru handteknar með 95 kíló af kókaíni í Ástralíu.
Melina Roberge (t.v.) og Isabelle Lagace sáttar með lífið á ferð sinni um heiminn áður en þær voru handteknar með 95 kíló af kókaíni í Ástralíu. Mynd/Instagram
Kanadísk kona á þrítugsaldri, Melina Roberge, hefur verið dæmd fyrir að smygla umtalsverðu magni af kókaíni til Ástralíu með skemmtiferðaskipi árið 2016. Hún hlaut átta ára fangelsisdóm, að því er fram kemur í frétt BBC, en fjallað hefur verið ítarlega um málið á Vísi.

Roberge er ein þriggja Kanadamanna sem handteknir voru í aðgerðum lögreglu á sínum tíma. Ein þeirra, hin liðlega þrítuga Isabelle Lagacé, var dæmd fyrir aðild sína að málinu í nóvember síðastliðnum. Hún hlaut sjö og hálfs árs fangelsisdóm og háa fjársekt.

Þriðji aðilinn, hinn 64 ára Andre Tamine, hefur enn ekki verið dæmdur fyrir aðild sína.

Sjá einnig: Breyta framburði sínum í stóra Instagram-kókaín málinu

Dómarinn í málinu, Kate Traill, sagði við réttarhöldin að greinilegt væri að Roberge sæi eftir gjörðum sínum. Hún ávítaði Roberge þó fyrir „grunnhygginn“ lífsstíl sinn og sagði hana hafa látið ginnast af tækifæri til að birta flottar Instagram-myndir. Málið þykir einmitt einna merkilegast fyrir þær sakir að þær Lagacé og Roberge birtu myndir úr fíkniefnaferðinni á Instagram.

„Hún sóttist eftir því að vera öfunduð af öðru fólki. Ég efast um að sú sé raunin nú,“ sagði dómarinn um Roberge við réttarhöldin.

Um var að ræða 95 kíló af kókaíni, sem þau Roberge, Lagacé og Tamine fluttu til Ástralíu með skemmtiferðaskipinu MS Sea Princess.

Verðmæti fíkniefnanna er talið nema um 1,7 milljörðum íslenskra króna og er um að ræða mesta magn sem ástralska lögreglan hefur lagt hald á, á skipi eða bát, í einu og sömu aðgerðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×