Enski boltinn

Fyrsta vetrarfrí enska boltans verður árið 2020

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah í leik með Liverpool á móti Everton í snjókomu.
Mohamed Salah í leik með Liverpool á móti Everton í snjókomu. Vísir/Getty
Enska knattspyrnusambandið, enska úrvalsdeildin og ensku neðri deildirnar eru svo gott sem búin að ná samkomulagi um vetrarfrí í enska fótboltanum en þetta kemur fram á Sky Sports.

Englendingar hafa talað lengi um að fá inn vetrarfrí eins og í helstu deildum í Evrópu en það er aldrei spilað þéttar í enska boltanum en einmitt um jól og áramót.

Svo verður reyndar áfram en vetrarfrí enska boltanum verður í byrjun nýs árs nánar tilgetið í kringum mánaðarmótin janúar og febrúar.





Fyrirkomulagið í ensku úrvalsdeildinni verður þannig að ein umferð fer þá fram á tveimur helgum. Það þýðir að öll liðin fá þrettán daga frí. Sum þeirra spila fyrri helgina og fá þá frí á þeirri næstu og svo öfugt.

Sky Sports segir að yfirstjórn enska knattspyrnusambandsins hafi í dag fengið upplýsingar um hvernig viðræðurnar hafi gengið og það sé líklegt að þær gangi í gegn.

Það var  Martin Glenn, framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins, sem lagði þetta til fyrir næstum því tveimur árum og nú eru menn loksins að landa þessu.

Fyrsta vetrarfríið á að vera í janúar og febrúar árið 2020.

Á móti því að einni umferð sé dreift á tvær helgar þá mun fimmta umferð ensku bikarkeppninnar einnig fara fram um miðja viku. Ef það verður jafntefli í þeim leikjum þá er framlengt og farið í vítaspyrnukeppni í stað þess að spila annan leik eins og nú er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×