Handbolti

Þáttaka ÍBV í Evrópukeppni setur úrslit Olís deildarinnar í uppnám

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bikar og deildarmeistarar ÍBV leika á laugardag fyrri leik sinn í undanúrslitum Áskorendabikars Evrópu gegn rúmenska liðinu Potaissa Turda. Síðari leikurinn fer fram ytra viku seinna. Þáttaka ÍBV í keppninni setur skipulag úrslitakeppni Olís deildar karla í uppnám.

ÍBV er komið í undanúrslit Olís deildarinnar eftir 2-0 sigur á ÍR í 8-liða úrslitunum. Undanúrslitin hefjast á þriðjudag þegar ÍBV tekur á móti Haukum í fyrsta leik í Vestmannaeyjum.

„Það er ljóst að við þurfum að færa til nokkra leiki og það verður smá púsluspil að koma þessu öllu saman en við munum að sjálfsögðu gera það,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Það má segja að fyrirkomulagið hér heima býður ekki upp á það að lið komist þetta langt í Evrópukeppni, ekki nema við förum í einhverjar breytingar og þá er það eitthvað sem við gerum eins og í þessu tilfelli.“

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða fyrir næsta ár.“

Sama staða kom upp í fyrra þegar Valur komst í undanúrslit Áskorendabikarsins, en verðandi Íslandsmeistararnir duttu úr leik á því stigi og Íslandsmótið gat því klárast í maí. Fari svo að ÍBV fari alla leið í úrslit bæði í Evrópu og hér heima gæti orðið að úrslitakeppni Olís deildarinnar klárist ekki fyrr en í lok maí.

„Við höfum svigrúm. Við erum ekki bundnir landsliðsverkefnum fyrr en í byrjun júní, svo við höfum svigrúm til þess að takast á við þetta. Hins vegar þýðir þetta að úrslitakeppnin verður kannski ekki spiluð eins þétt og sumir hefðu á kosið,“ sagði Róbert Geir Gíslason.

Umfjöllun Gaupa úr kvöldfréttunum má sjá í sjónvarpsglugganum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×