Enski boltinn

L'Equipe: Liverpool ætlar að bjóða Fellaini þriggja ára samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marouane Fellaini í leik með Manchetser United á móti Liverpool.
Marouane Fellaini í leik með Manchetser United á móti Liverpool. Vísir/Getty
Franska blaðið L'Equipe slær því upp í dag að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sé á eftir belgíska miðjumanninum og landsliðsmanninum Marouane Fellaini.

Marouane Fellaini er að renna út á samning hjá Manchester United og Liverpool er sagt í fréttinni vera tilbúið að bjóða honum þriggja ára samning en Fellaini er þrítugur.

Klopp er að leita að manni inn á miðjuna núna þegar það er langt frá því að vera öruggt að Emre Can spili áfram með Liverpool-liðinu.





Fellaini lék áður í Liverpool en þá með nágrönnunum í Everton. Það eru ekki margir leikmenn Liverpool í gegnum tíðina sem hafa áður spilað með bæði Manchester United og Everton.

Fari Fellaini beint frá Manchester United til Liverpool þá yrði hann fyrsti leikmaðurinn í fimmtíu ár til að fara beint á milli félaganna. Síðastur til að fara frá Old Trafford yfir á Anfield var Phil Chisnall árið 1964.





Liverpool fær samt örugglega samkeppni um Fellaini því frönsku liðin Paris Saint-Germain og Mónakó hafa einnig áhuga á að semja við Belgann.

Paris Saint-Germain sér Fellaini fyrir sér sem eftirmann Thiago Motta og þar gæti Belginn einnig fengið þriggja ára samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×