Íslenski boltinn

ABBA-kerfið og fjórða skiptingin á Íslandi í sumar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bríet og aðrir dómarar mega nú sveifla gulum og rauðum spjöldum að þjálfurum næsta sumar.
Bríet og aðrir dómarar mega nú sveifla gulum og rauðum spjöldum að þjálfurum næsta sumar. vísir/andri marinó
Í Mjólkurbikarnum í sumar verður hægt að gera auka skiptingu þegar leikur fer í framlengingu en þetta er meðal þeirra breyting á knattspyrnulögunum sem KSÍ tilkynnti um á heimasíðu sinni í dag. Þá má ekki lengur taka innköst á hnjánum.

Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda hefur nú tilkynnt um einhverjar breytingar á lögunum en mestu breytingarnar varða VAR (myndbands-aðstoðardómara) en það verður ekkert svoleiðis hér á landi í sumar.

Fjórða skiptingin í framlengingu verður gerð leyfileg í Mjólkurbikarnum og einnig í úrslitakeppni fjórðu deildar karla en einnig verður notað svokallað ABBA-kerfi í vítaspyrnukeppnum.

Það virkar þannig að ef lið A byrjar, þá tekur B næstu tvær spyrnur. Fari leikir í Mjólkurbikarnum eða í úrslitakeppnum Íslandsmótsins í sumar í vítaspyrnukeppni verður það ABBA-kerfið sem mun ráða för.

Nú mega dómarar sýna forráðamönnum gul og rauð spjöld inn í svokölluðum boðvangi sem er afmarkað svæði í kringum varamannabekki liðsins þar sem þjálfarar og forráðamenn liðana mega vera. 

Greint er frá því að dómaranefndin mun taka sérstaklega fast á óviðeigandi hegðun forráðamanna í sumar. Áður fyrr fóru spjöldin ekki á loft er forráðamenn í boðvangi áttu í hlut.

Fleiri breytingar og nánari útskýringar má lesa á heimasíðu KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×