Erlent

Hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Sýrlandi hefðu „alvarlegar afleiðingar“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum.
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum. Vísir/AFP
Bandaríkjamenn íhuga nú hernaðaraðgerðir í Sýrlandi, að því er fram kom á neyðarfundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag. Rússar segja að hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna á svæðinu hefði „alvarlegar afleiðingar“ í för með sér.

Öryggisráðið fundaði í dag vegna efnavopnaárásar sem gerð var á bæinn Douma í úthverfi Damaskus í Sýrlandi í fyrradag. Stjórn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta hefur verið kennt um árásina sem banaði að minnsta kosti 40 manns.

Sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, Vassily Nebenzia, sagði á fundi Öryggisráðsins í dag að efnavopnaárásin hefði verið „sviðsett.“ Þá sagði hann að hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Sýrlandi myndi hafa „alvarlegar afleiðingar“ í för með sér.

Nebenzia bauð einnig alþjóðlegu rannsóknarteymi að fljúga á vettvang í Sýrlandi strax á þriðjudag og kanna hvort um hefði verið að ræða efnavopnaárás. Rússar, auk bandamanna sinna í sýrlenska stjórnarhernum, hafa hingað til meinað rannsakendum að kanna aðstæður.

Nikki Haley á neyðarfundi Öryggisráðsins í New York í dag.Vísir/AFP
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, var harðorð í garð Rússa á fundinum og sagði þá bera ábyrgð á dauða sýrlenskra barna. Hún kallaði Sýrlandsforseta auk þess „skrímsli“ og sagði Bandaríkjamenn nú íhuga hernaðaraðgerðir í Sýrlandi, hvort sem Öryggisráðið beiti sér í málinu eða ekki.

„Það er verið að halda fundi, það er verið að vega og meta mikilvægar ákvarðanir,“ sagði Haley.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við fréttamenn í dag að stjórn hans hefði miklar áhyggjur vegna árásarinnar í Douma. Þá útilokaði hann ekki hernaðaðgerðir í Sýrlandi, að því er segir í frétt Washington Post, og lofaði auk þess að taka ákvörðun um gagnaðgerðir innan 24 eða 48 klukkustunda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×