Körfubolti

Andrei Kirilenko til Íslands vegna stjórnarfundar FIBA Europe

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Kirilenko.
Andrei Kirilenko. Vísir/Getty
Stjórnarfundur evrópska körfuknattleikssambandsins, FIBA Europe, fer í Reykjavík um næstu helgi.

Þetta er í fyrsta sinn sem stjórn FIBA Europe kemur saman til fundar á Íslandi en fundurinn verður á Grand hóteli. KKÍ segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands er í stjórn FIBA Europe og hefur farið í ófáar ferðirnar til München en nú verður einu sinni stutt að fara fyrir okkar mann.

Stjórnarfundir eru yfirleitt í höfuðstöðvum FIBA Europe í Munchen en að þessu sinni verður fundað á Íslandi sem er mikill heiður fyrir íslenska körfuknattleikssambandið.

Ásamt því að halda hefðbundinn stjórnarfund mun stjórnarfólk skoða landið og heimsækja forseta Íslands Guðna Th. Jóhannesson.

Nokkrir þekktir fyrrverandi leikmenn sitja í stjórn FIBA Europe og er þeirra þekktastur án efa Andrei Kirilenko en hann er forseti rússneska sambandsins. Þá má ekki gleyma Jorge Garbajosa sem er forseti spænska sambandsins.

Ásamt stjórnar- og starfsfólki FIBA Europe kemur til landsins Patrick Baumann, framkvæmdastjóri FIBA og stjórnarmaður í alþjóðlegu Ólympíuhreyfingunni.

Andrei Kirilenko er fyrrum leikmaður Utah Jazz, Minnesota Timberwolves og Brooklyn Nets í NBA-deildinni en hann lék lengst af með Utah eða í tíu ár frá 2001 til 2011.

Kirilenko var valinn í stjörnuleik NBA 2004 og var kosinn í varnarlið ársins 2006. Hann leiddi NBA-deildina í vörðum skotum árið 2005 og það þrátt fyrir að vera „bara“ 206 sentímetrar á hæð.

Andrei Kirilenko lék alls 797 leiki í NBA og var í þeim með 11,8 stig, 5,5 fráköst, 2,7 stoðsendingar, 1,8 varin skot og 1,4 stolna bolta að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×