Erlent

150 hvalir óðu á land

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um helmingur hvalahópsins er sagður dauður.
Um helmingur hvalahópsins er sagður dauður. Stjórnvöld í Vestur-Ástralíu
Víðtækar björgunaraðgerðir standa nú yfir í Ástralíu eftir að rúmlega 150 grindhvalir óðu þar á land í morgun.

Að sögn breska ríkisútvarpsins kom sjómaður auga á dýrin er hann sigldi meðfram ströndum Hamelin-flóa, um 300 kílómetra sunnan af borginni Perth í vesturhluta landsins.

Um helmingur hvalanna er sagður vera dauður en ekki er enn vitað hvers vegna þeir leituðu upp á land, þó grindhvalahópar hafi áður orðið uppvísir að sambærilegri landgöngu. Björgunarfólk gerir nú hvað það getur til að bjarga eftirlifandi hvölum og reynir að nýta sér háflóð til að ýta þeim aftur á haf út.

Hvassviðri og rigning virðist þó ætla að torvelda björgunaraðgerðir og segja talsmenn björgunarhópsins að hann sé hóflega bjartsýnn um árangur. 

Stjórnvöld í Vestur-Ástralíu hafa jafnframt gefið út hákarlaviðvörun vegna grindhvalavöðunnar og biðlað til fólks að halda sig frá ströndinni. Óttast er að hákarlar kunni að renna á lyktina og flykkjast á svæðið þar sem á annan tug björgunarmanna keppir við tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×