Erlent

Gerðu sátt vegna dauða Star Trek-stjörnu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Anton Yelchin var aðeins 27 ára þegar hann lést.
Anton Yelchin var aðeins 27 ára þegar hann lést. vísir/getty
Foreldrar Anton Yelchin, leikara sem þekktastur var fyrir leik sinn í Star Trek, hafa gert sátt við framleiðanda Jeep Grand Cherokee-bílanna vegna dauða sonar þeirra. Yelchin lést er hann varð fyrir eigin bíl í innkeyrslunni við heimili sitt árið 2016.

 

Foreldrarnir kærðu Fiat Chrysler og töldu framleiðandann bera ábyrgð á dauða Yelchin en hann klemmdist á milli póstkassa og öryggisgirðingar í innkeyrslunni að heimili sínu þegar bíllinn rann á hann. Töldu foreldrar hans að hönnunargalli sem Fiat Chrysler vissi af hefði spilað stóran þátt í slysinu.

Sáttin sem þau Victor og Irina Yelchin náðu við Fiat Chrysler var tekin fyrir fyrr í vikunni hjá dómstóli í Los Angeles að því er fram kemur í frétt AP. Sáttin er trúnaðarmál.

Fiat Chrysler sagði í yfirlýsingu að fyrirtækið væri ánægt með að ná þessari niðurstöðu. Þá ítrekaði það sínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu Yelchin.

Yelchin var 27 ára þegar hann lést.

„Yelchin kramdist og tórði á lífi um stund, fastur þar til hann kafnaði og lést,“ sagði í kærunni sem foreldrar hans lögðu fram á sínum tíma.

Cherokee-jeppi hans var árgerð 2015 sem var innkölluð vegna galla í gírskiptibúnaði bílanna. Gallinn olli því að auðveldara var að ruglast og setja bílinn óvart í hlutlausan þegar viðkomandi ætlaði að leggja bílnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×