Handbolti

Seinni bylgjan: „Fór með drengjakór Selfyssinga í annað sætið“

Dagur Lárusson skrifar
Uppgjörsþáttur Seinni bylgjunnar var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í gærkvöld. Þar fóru Tómas Þór Þórðarson og sérfræðingar hans, Gunnar Berg Viktorsson og Jóhann Gunnar Einarsson, yfir lokaumferðina og gerðu upp tímabilið.

Eitt af því sem að sérfræðingarnir fóru yfir var lið ársins og þjálfari ársins að þeirra mati. Þjálfari ársins að mati Seinni bylgjunnar var Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, en Tómas Þór sagði að það hafi aðeins tveir þjálfarar komið til greina.

„Patrekur Jóhannesson fór með drengjakór Selfyssinga beint í annað sætið, var mögulega vítakasti frá því að verða deildarmeistari, vann sautján leiki, breytti oft um varnir, vann auðvitað þennan ótrúlega leik gegn Haukum. Hann og Arnar Pétursson komu báðir til greina en það er erfitt að mótmæla þessu vali,“ sagði Tómas Þór.

Gunnar Berg Viktorsson viðurkenndi að Patrekur ætti þetta skilið en hann sagði einnig að Arnar hefði átt þetta vel skilið.

„Auðvitað er maður smá litaður af þessu, ég meina Arnar er deildarmeistari og bikarmeistari þannig við tökum þetta ekkert af honum,“ sagði Gunnar.

Jóhann Gunnar vildi meina að Patrekur hafi átt sérstakt samband við sína leikmenn.

„Hann er eitthvað svo fullkominn með þessa stráka virðist vera, talar svo fallega um þá og þetta er eitthvað svo voðalega fallegt samband,“ sagði Jóhann.

Þegar valið á þjálfara ársins var klárt var heildarlið ársins opinberað en það innihélt Einar Rafn úr FH, Ágúst Birgisson úr FH, Hákon Daða úr Haukum, Björgvin Pál úr Haukum, Elvar Örn frá Selfossi, Hauk Þrastarson frá Selfossi og Theodór Sigurbjörnsson frá ÍBV. Patrekur Jóhanneson var því þjálfarinn í liði ársins.


Tengdar fréttir

Seinni bylgjan: „Aldrei óhultur fyrir niðurlægingu Barbasinski“

Uppgjörsþáttur Seinni bylgjunnar var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á föstudaginn. Þar fóru Tómas Þór Þórðarson og sérfræðingar hans, Gunnar Berg Viktorsson og Jóhann Gunnar Einarsson, yfir lokaumferðina og gerðu upp tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×