Íslenski boltinn

Ólafur Páll: Vildi ekki þetta kaos sem nýliði í þjálfun

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafur Páll Snorrason er kominn aftur í Grafarvoginn og er þjálfari Pepsi deildar liðs Fjölnis eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Heimis Guðjónssonar hjá FH á síðasta tímabili.

„Þetta er töluvert meiri vinna heldur en það að vera leikmaður að leika sér í fótbolta,“ sagði Ólafur Páll í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Ég vænti þess að við náum að byggja upp ákveðinn stöðugleika í Fjölnisliðinu. Áframhald á því sem var hér 2014, 15 og 16.“

Ólafur vann sex titla með FH, bæði Íslands- og bikarmeistaratitla.

„Minn metnaður liggur í því að vinna hluti og það eru hlutir sem ég vil miðla til leikmanna Fjölnisliðsins, það er tvímælalaust mikil og góð reynsla.“

Fjölnir hefur lokið leik í Lengjubikar karla. Fyrir þau lið sem ekki komast í úrslitin tekur við 40 daga hlé þar til fyrsta umferð Pepsi deildarinnar er leikin. Margir þjálfarar hafa gagnrýnt það mikið og tekur Ólafur undir gagnrýnina.

„Þetta er ákveðinn hausverkur sem að ég óskaði ekki endilega sem nýliði í þjálfun, að þurfa að lenda í svona kaosi.“

Þá spáði hann Valsmönnum titlinum annað árið í röð.

Viðtal Gaupa við Ólaf má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×