Handbolti

Besta hægri skyttan var hornamaður: „Það trúði mér enginn að ég væri skytta“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
FH átti tvo leikmenn í liði ársins í Olís-deild karla í handbolta en lið ársins og fleiri verðlaun voru afhent í uppgjörsþætti Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport síðasta föstudag.

Línumaðurinn Ágúst Birgisson og hægri skyttan Einar Rafn Eiðsson voru báðir í liðinu en Einar Rafn var einn besti leikmaður deildarinnar í vetur. Hann hefur blómstrað sem hægri skytta undanfarin ár en hann er að upplagi hornamaður.

„Þegar að ég var yngri sagði ég alltaf að ég ætti að vera skytta en það trúði mér náttúrlega enginn. Ég er lítill og kannski ekki mjög sterklega byggður,“ sagði Einar Rafn í spjallsettinu í þættinum á föstudaginn.

Lið ársins í Olís-deild karla.
Einar kemur úr Fram og var þar mjög frambærilegur hornamaður en á undan honum í röðinni í skyttunni var Jóhann Gunnar Einarsson sem er sérfræðingur í Seinni bylgjunni í dag.

„Þegar að ég kem í FH er ég hornamaður fyrst og svo fer ég til Noregs og spila horn. Þegar ég kem heim hefur Halldór Jóhann samband við mig og spyr hvort ég vilji taka skyttu og horn til skiptist en einhvern veginn þróaðist það þannig að ég festist í skyttustöðunni. Ég hef gaman að því að taka ákvarðanir og því held ég að þetta sé mín rétta staða,“ sagði Einar Rafn Eiðsson.

Alla umfjöllunina og viðtalið við FH-ingana má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Seinni bylgjan: Hætt'essu ársins

Eins og allir handboltaunnendur vita þá hafa strákarnir í Seinni bylgjunni einstaklega gaman af því að hafa gaman. Þeir hafa fyllt líf áhorfenda með hlátri og skemmtun í uppáhaldslið margra, „Hætt'essu.“

Seinni bylgjan: „Góður en ekki grófur“

Uppgjörsþáttur Seinni bylgjunnar var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á föstudaginn. Þar fóru Tómas Þór Þórðarson og sérfræðingar hans, Gunnar Berg Viktorsson og Jóhann Gunnar Einarsson, yfir lokaumferðina og gerðu upp tímabilið.

Seinni bylgjan: „Aldrei óhultur fyrir niðurlægingu Barbasinski“

Uppgjörsþáttur Seinni bylgjunnar var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á föstudaginn. Þar fóru Tómas Þór Þórðarson og sérfræðingar hans, Gunnar Berg Viktorsson og Jóhann Gunnar Einarsson, yfir lokaumferðina og gerðu upp tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×