Fótbolti

Heimsmeistari frá 1986: Messi er tíu sinnum mikilvægari fyrir liðið í dag en Maradona var 1986

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Diego Maradona.
Lionel Messi og Diego Maradona. Samsett/Getty
Argentínska þjóðin er á hliðinni eftir 6-1 stórtap á móti Spáni í gær. Það vantar heldur ekki gagnrýnendurna úr hópi eldri landsliðsmanna og einn af þeim sem gekk hvað lengst er Pedro Pasculli.

Pedro Pasculli varð heimsmeistari með Argentínu á HM í Mexíkó 1986 og eina markið hans í keppninni var af mikilvægari gerðinni. Pasculli skoraði eina mark leiksins þegar Argentína vann 1-0 sigur á Úrúgvæ í 16 liða úrslitunum.

Pasculli ætti að þekkja vel mikilvægi Diego Maradona fyrir heimsmeistaraliðið 1986 en það er almennt talað um að Maradona hafi næstum því unnið keppnina í Mexíkí 1986 upp á eigin spýtur. Mardona var þá með 5 mörk og 5 stoðsendingar í sjö leikjum.

„Lionel Messi er tíu sinnum mikilvægari fyrir argentínska landsliðið í dag en Maradona var 1986. Messi kemur samt ekki inn í liðið og leysir öll vandamál. Frá miðju fram í sókn kannski en hver ætlar að laga varnarleikinn?,“ spurði Pedro Pasculli.

„Þessi úrslit skapa enn eitt vandamálið fyrir Messi því nú verður öll ábyrgðin á honum þegar hann klæðist landsliðstreyjnni næst,“ sagði Pedro Pasculli.





„Diego Maradona leysti okkar vandamál fyrir 32 árum en hann var ekki einn. Við stóðum með honum,“ sagði Pasculli.

„Sergio Agüero og Ángel Di María eru ekki að sýna það með landsliðinu sem þeir eru að gera með félagsliðunum. Ég myndi alltaf taka Paulo Dybala með á HM. Það er rétt að hann spilar í sömu stöðu og Messi en þar er á ferðinni ungur leikmaður sem gæti leyst nokkur vandamál. Hann er ekki Messi en hann getur gert útslagið,“ sagði Pasculli.

„Með fullri virðingu þá erum við Argentína. Við erum ekki Perú. Við eigum besta leikmanninn í heimi. Við verðum að spila fótbolta og sækja sigurinn. Við þurfum réttu persónuleikana til að klæðast bláu og hvítu skyrtunni, menn sem mæta inn á völlinn og segja. Við viljum vinna,“ sagði Pasculli.

„Ég vona samt með öllu hjarta að Argentína verði heimsmeistari,“ sagði Pasculli að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×