Enski boltinn

Ferguson veitir Wenger stuðning

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wenger og Ferguson áttu í stirðu sambandi á meðan þeir áttust við á fótboltavellinum. Þeim er hins vegar vel til vina í dag
Wenger og Ferguson áttu í stirðu sambandi á meðan þeir áttust við á fótboltavellinum. Þeim er hins vegar vel til vina í dag Vísir/Getty
Arsenal hefur ekki átt góðu gengi að fagna síðustu vikur, að undanskildum sterkum útisigri gegn AC Milan í Evrópudeildinni í ný liðinni viku, og hefur Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, legið undir mikilli gagnrýni.

Frakkinn hefur verið við stjórnvöllinn á Emirates í nærri 22 ár, síðan í ágúst 1996. Hann hefur sjaldan þurft að upplifa eins svarta tíma og nú síðustu vikur; tvö 3-0 töp gegn Manchester City í röð þar sem liðið spilaði virkilega illa og var afhúðað í fjölmiðlum og tap gegn Brighton sem þýðir að Skytturnar eru þrettán stigum frá fjórða sætinu þegar níu umferðir eru eftir í deildinni.

Þetta slæma gengi hefur valdið Wenger miklum áhyggjum og hefur hann átt erfitt með svefn síðustu daga. Hann segir gagnrýnina vera særandi, en hann taki hana þó ekki of mikið inn á sig.

„Ég veit að þeir hata mig ekki sem manneskju, heldur hata þeir stjórann sem skilar ekki góðum úrlsitum,“ sagði Wenger.

Hann sagði marga hafa sýnt honum mikinn stuðning, þar á meðal mann sem var áður sagður erkióvinur Wenger, Skotann Alex Ferguson sem stýrði Manchester United til fjölda ára.

„Ég á í mjög góðu sambandi við Ferguson. Hann sendir mér stundum skilaboð þegar hlutirnir ganga ekki nógu vel.“

„Við stjórarnir stöndum svolítið saman. Ég styð alltaf aðra stjóra og fæ stuðning frá þeim. Við erum allir í sama báti,“ sagði Arsene Wenger.

Arsenal mætir Watford á sunnudaginn og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá 13:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×