Innlent

Fjármagnaði umdeildan fund sjálfur

Samúel Karl Ólason skrifar
Ögmundur Jónasson er fundarstjóri
Ögmundur Jónasson er fundarstjóri Vísir/Ernir
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, fjármagnaði umdeildan fund um ástandið í Sýrlandi sjálfur. Fundurinn er liður í fundaröð sem hann sjálfur stendur við og er kölluð: Til róttækrar skoðunar. Meðal þeirra sem fram komu á fundinum var Vanessa Beeley, sem hefur undanfarin ár verið harðlega gagnrýnd fyrir málflutning sinn af átökum í Sýrlandi sem er hliðhollur Bashar al Assad, forseta Sýrlands og yfirvöldum Rússlands.

„Þar [á fundunum] hef ég tekið fyrir málefni sem að brenna á samfélaginu eða, að mínum dómi, ættu að brenna á samfélaginu. Ég var með þessa fundi í Iðnó og hef þar tekið fyrir málefni Kúrda, tók fyrir alþjóðlega viðskiptasamninga, innflutning á matvöru, heimaaðhlynningu aldraðra og einkavæðingu ÁTVR,“ segir Ögmundur í samtali við Vísi.

Þessa fundi hefur Ögmundur fjármagnað sjálfur. Hann hafi fengið stuðning og þá fyrst og fremst í söfnunarbauk sem hann hefur á fundunum.

„Það gerði ég núna og það fer eitthvað upp í salarleiguna.“

Ögmundur segir Vanessu Beeley hafa komið fyrst og fremst fyrir frumkvæði þeirra sem þýði bók Tims Andersons, The Dirty War In Syria. Hann sjálfur þýddi einn kafla í bókinni.

Beeley hefur gist í lánsíbúð og sömuleiðis heima hjá Ögmundi.

„Þetta eru engir stórir peningar þarna á bak við og engir aðrir en við sem erum að standa straum af þessu. Sem að stöndum af þessum fundi,“ segir Ögmundur og bæti við að hann sé fyrst og fremst ábyrgur fyrir fundinum.

Samsæri víða

Beeley hefur meðal annast farið hart fram gegn „Hvítu hjálmum“ Sýrlands, sjálfboðasamtökum manna sem bjarga fólki úr rústum húsa, og hafa myndað afleiðingar loftárása og efnavopnaárása í Sýrlandi. Sömuleiðis hefur hún haldið því fram að Assad hafi engar efnavopnaárásir gert í Sýrlandi, þvert á niðurstöður Efnavopnastofnunar Sameinuðu þjóðanna og fjölmargra ríkja. Þá heldur hún því fram að styrjöldin í Sýrlandi sé í raun alþjóðlegt samsæri þjóðríkja til að koma Assad frá völdum.

Miðað við málflutning hennar koma Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, fjölmiðlar, hjálparsamtök og mannréttindasamtök um heim allan að samsærinu.

Ríkisfjölmiðlar Rússlands vitna reglulega í skrif hennar og fá hana í viðtöl. Eitt nýlegt dæmi um slíkt er þegar Sputnik ræddi við hana um það hvernig ástandið í Ghouta, þar sem minnst þúsund almennir borgarar féllu í loftárásum Rússa og stjórnarhers Assad á síðustu vikum, samkvæmt Syrian Observatory for Human Rights, megi rekja til NATO.



Fundur Ögmundar bar heitið: Er verið að segja okkur satt um stríðið í Sýrlandi?



„Nauðsynleg umræða“

„Ég er mjög ánægður með hve vel hann tókst,“ segir Ögmundur um fundinn umrædda. „Það komu um tvö hundruð manns á fundinn, taldist mér til, og þetta hefur orðið til þess að vekja upp mjög nauðsynlega umræðu, tel ég vera. Tími til að farið verði að kafa á miklu gagnrýnni hátt ofan í þetta sóðalega stríð sem hefur verið í Sýrlandi og hefur hrakið milljónir á brott frá landinu.“



Stundin sagði frá því í gær að útgáfa bókarinnar á íslensku hefði verið tileinkuð minningu Hauks Hilmarsson, sem féll í loftárásum Tyrkja í Afrin-héraði þann 24. febrúar. Það mun hafa farið verulega fyrir brjóstið á fjölskyldu Hauks og vinum.



Ögmundur hefur sjálfur verið gagnrýndur fyrir að bjóða Beeley að tala á fundinum og hefur til dæmis Egill Helgason vakið athygli á því að í fyrra hitti hún Assad og lýsti því sem sínu „stoltasta augnabliki“. Þá vísar hann til þess að hún skrifi og ritstýri miðlum sem hæðist að loftslagsvísindum og geri út á samsæriskenningar.

Beeley hefur sömuleiðis farið til Rússlands til að ræða skoðanir sínar á átökunum í Sýrlandi og fundaði þar með aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, og upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins.

„Málflutningur þessa fyrirlesara gekk út á að halda því fram að þetta stríð sé að verulegu leyti háð fyrir tilstilli utanaðkomandi aðila; Bandaríkjanna, NATO-ríkjanna, Sádi-Arabíu og með stuðningi Ísrael sem að svo beita fyrir sig leppherjum í Sýrlandi. Það breytir því ekki að áður en þetta stríð hófst voru mótmæli gegn stjórn Assad og þá gegn harðræði að hans hálfu.“

„Það sem að mér finnst gott er að menn skoði þessi mál, þeir hefðu betur gert það þegar innrásin var gerð í Írak á sínum tíma og við þekkjum Líbýu og við þekkjum Mið-Ameríku og fyrri stríðsátök, að það er ekki nóg með að menn drepi fólk með sprengjum og drónum heldur er stríðið líka háð í fjölmiðlum. Við skulum ekkert vera barnaleg þegar kemur að þeim þættinum.“

„Mér finnst óskaplega umhugsunarvert að sjá hve margir eru fljótir til að sverta þá sem að fara gegn ríkjandi straumi fréttamennskunnar og það hefur gerst í þessu tilviki.“

„Þeir einstaklingar sem að hér eiga í hlut til dæmis fyrrgreinda bók. Það er gúgglað og fundinn einhver óhróður þar sem búið er að snúa út úr máli þeirra, klippt úr samhengi og síðan er umræðan afgreidd með þeim hætti. Jafnvel þó að fólk væri ósammála þessum einstaklingum þá stendur það að sjálfsögðu eftir að það ber að skoða innihald þess sem að þau hafa fram að færa,“ segir Ögmundur.

Umræðan rekin til Rússlands

Þegar litið er til gagnrýni Beeley gagnvart Hvítu hjálmunum, sem í raun kallast Syria Civil Defense, er eitt atvik sem er hvað umdeildast. Það var þegar hópur meðlima samtakanna tók þátt í „gínuáskoruninni“ og sviðsettu björgun úr húsarústum. Sú sviðsetning var gagnrýnd harðlega og þótti alls ekki við hæfi.



Beeley ræddi hins vegar við RT, áróðursmiðil rússneska ríkisins, og sagði það til marks um að fjölmörg myndbönd af björgunum Hvítu hjálmana væru sviðsett og að þeir væru í raun ekki hjálparsamtök.

Meðlimir SCD eru um 3.400 talsins og hafa þeir meðal annars komið upp um efnavopnaárás stjórnarhersins í Khan Sheikhoun. Blaðamenn Guardian hafa rekið þá umræðu sem Beeley er virk í, beint til Rússlands og taka Twitter-bottar Rússlands virkan þátt í að byggja þá umræðu upp.



Ómeðvitað peð?

Í umfjöllun miðilsins segir að áróðursherferðin, sem hófst um svipað leyti og aðgerðir Rússa í Sýrlandi hófust, gegn Hvítu hjálmunum varpi ljósi á það hvernig samsæriskenningar og hálfur sannleikur nær til efstu hæða YouTube, Google og Twitter.

Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg

Ríkismiðlar Rússlands noti fólk sem falli fyrir áróðrinum til þess að magna hann. Breskur prófessor segir ljóst að margir hverjir sem taki þátt í herferðinni viti í raun ekki að þeir séu peð.

„Áhrifamesti áróðurinn er þegar þú finnur einhvern sem trúir honum og veitir honum stuðing.“

Beeley hélt eitt sinn fyrirlestur á ráðstefnu sem bar titilinn „Hvítir hjálmar: Staðreynd eða skáldskapur?“ þar sem ráðherra úr ríkisstjórn Assad hélt einnig fyrirlestur. Glærur Beeley voru svo seinna lagðar fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna af Rússlandi, sem sönnunargögn gegn Hvítu hjálmunum.

James Sadri, yfirmaður Syria Campaign samtakanna, segir það vera sönnun þess að ríkisstjórn Rússlands vinni hörðum höndum af því að gera hana marktæka og stækka umsvif hennar í áróðursherferð þeirra.

„Bloggari fyrir 9/11 samsærissíðu sem heimsótti Sýrland í fyrsta sinn í fyrra [2016] á ekki að vera tekin alvarlega sem sérfræðingur um átökin.“

Beeley vildi ekki tjá sig við Guardian og sagði spurningarnar sem lagðar voru fyrir hana vera skammarlegar spurningar sem innihéldu engar staðreyndir og líkti þeim við yfirheyrslu. Skömmu seinna birtist hún í YouTube þætti þar sem hún sakaði Guardian um falsfréttir og að notast við myndefni frá Hvítu hjálmunum, sem hún sagði tengjast al-Qaeda. Í myndbandinu sagði hún að samkvæmt „meirihluta áliti“ væru Hvítu hjálmarnir svikulsöm hryðjuverkasamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×