Erlent

Versti þjófur heims? Stal tyggjókúluvél en skildi peningakassann eftir

Samúel Karl Ólason skrifar
Þjófurinn ákveður að stinga vélinni út um hundalúguna.
Þjófurinn ákveður að stinga vélinni út um hundalúguna.
Starfsmenn dýraskýlis í Sacramento í Bandaríkjunum birtu um helgina myndband af þjófi sem braust þar inn til að ræna tyggjókúluvél. Fjölmiðlar ytra hafa titlað manninn versta þjóf í heimi þar sem aðfarir hans voru beinlínis hlægilegar og gekk honum hræðilega að stela vélinni. Þjófurinn hundsaði þó alfarið peningakassa sem var á borði við hliðina á honum og innihélt mikið fé.

Ránið sjálft átti sér stað á miðvikudaginn. Þjófurinn slæmi þröngvaði sér inn í Front Street dýraskýlið í gegnum hundalúgu og greip tyggjókúluvélina. Honum tókst ekki að brjóta upp hurðina að innan frá, en svo virðist sem hún opnist inn á við.

Eftir nokkur spörk í hurðina tók þjófurinn til þess ráðs að reyna að stinga vélinni út um hundalúguna. Við það dreifðust tyggjókúlur út um allt og vélin sjálf brotnaði. Hann reyndi einnig að skríða út og draga vélina út á eftir sér en tyggjókúlurnar gerðu honum erfitt fyrir og hann rann mikið til.

Þá tók hann upp fjóra smápeninga sem duttu úr vélinni og fékk nýja hugmynd. Hann skreið aftur inn og reyndi að brjóta upp vélina svo hann gæti sleppt því að taka hana með sér. Það gekk þó ekki og ný hugmynd fæddist.

„Hinn grunaði fyllist snilligáfu og áttar sig á því að stundum eru fleiri en einar dyr á húsum,“ segir í myndbandi dýraskjólsins.

Þjófurinn dró því vélina með sér og skoðaði sig um. Hann komst út bakdyramegin. Þar, á meðan um 50 hundar geltu á hann, kastaði hann því sem eftir var af tyggjókúluvélinni yfir girðingu. Þjófurinn sjálfur gat þó ekki farið yfir girðinguna þar sem hún var úr gaddavír. Hann þurfti því að hlaupa aftur inn og skríða út um hundalúguna.

Á meðan að á öllu þessu stóð, fór peningakassinn á borðinu við hliðina á þjófinum algerlega fram hjá honum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×