Innlent

Úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart barnsmóður sinni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Landsréttur er til húsa við Vesturvör í Kópavogi.
Landsréttur er til húsa við Vesturvör í Kópavogi. VÍSIR/STEFÁN
Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um að karlmaður á fertugsaldri skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði gagnvart barnsmóður sinni. 

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Landsréttur staðfesti, kemur fram að barnsmóðir mannsins hafi lagt fram beiðni um nálgunarbann á hendur honum í febrúar síðastliðnum vegna hótana og ítrekaðs ónæðis. Maðurinn, sem hefur endurtekið verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot, fékk reynslulausn úr fangelsi árið 2017 og í úrskurði segir að hann virðist strax hafa byrjað að áreita konuna.  

Í úrskurði kemur einnig fram að hann hafi komið í heimsókn til konunnar og verið mjög ógnandi. Bæði hótað að drepa brotaþola og rústa lífi hennar. Þá hafi hann „kastað vasa í gluggann“, verið mjög ógnandi og öskrað á hana. Brotaþoli kveðst hafa orðið mjög hrædd og óttast um líf sitt og velferð sína og barns síns.

Samkvæmt úrskurði neitar maðurinn téðum hótunum en kveðst hafa orðið reiður og hugsanlega sagt við konuna í reiðikasti að hann ætli að „rústa lífi hennar“. 

Í úrskurði kemur einnig fram að lögreglustjóri hafi byggt ákvörðun sína um nálgunarbann á því að maðurinn sé sterklega grunaður um hótun, eftir atvikum heimilisofbeldi, á heimili brotaþola. Hann hafi verið dæmdur fyrir gróft ofbeldisbrot gagnvart brotaþola og hafi áður áreitt hana. Þá hafi hann einnig verið ákærður og sakfelldur fyrir stórfellt ofbeldi gagnvart aðila sem brotaþoli var að hitta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×