Handbolti

Valur spilar úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn í Víkinni vegna árshátíðar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valur hefur verið í efstu sætunum í Olís deild kvenna lungan úr tímabilinu og getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn með stigi gegn Haukum.
Valur hefur verið í efstu sætunum í Olís deild kvenna lungan úr tímabilinu og getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn með stigi gegn Haukum. Vísir/Vilhelm
Mikil spenna ríkir fyrir loka umferðina í Olís deild kvenna þar sem þrjú lið geta orðið deildarmeistari. Tvö þeirra, Valur og Haukar, mætast á laugardaginn í sannkölluðum stórleik þar sem úrslitin geta ráðist. Leikurinn er heimaleikur Vals en fer þó ekki fram í Valsheimilinu þar sem það er upptekið.

Mikið er um að veislur og viðburðir séu haldin í Valsheimilinu og sú staða kom upp að salurinn var bókaður á laugardaginn og því var þessi stórleikur færður í Víkina, heimavöll Víkings R.

„Því miður þá kom upp sú staða að við vorum með bókaða árshátíð hér í tæpt ár í húsinu á þessum tíma en það kom ekki upp fyrr en í janúar að við myndum eiga leik á heimavelli á þessum degi,“ sagði Lárus Blöndal Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vals, í samtali við Vísi í dag.

„Við reyndum allt til þess að fresta umferðinni fram á sunnudag sem var hafnað af HSÍ. Reyndum allt til að koma í veg fyrir þessa niðurstöðu en því miður þá tókst það ekki.“

„Við erum í þeirri stöðu að reyna að ná í tekjur og gátum ekki brotið samninga okkar við þá sem leigja höllina á þessum tíma.“

Leikurinn fer fram klukkan 13:30 á laugardaginn en salurinn er bókaður allan daginn, í ráðstefnu um daginn og svo árshátíð að kvöldi til.

Loka umferð deildarinnar verður að vera leikin öll á sama tíma og því er ekki hægt að færa bara þennan eina leik.

Ágúst Jóhannesson, þjálfari kvennaliðs Vals, vildi lítið tjá sig um málið. „Auðvitað hefði verið best að spila leikinn í Valsheimilinu, það eru allir sammála um það, en þeta er niðurstaðan og við tökum henni,“ sagði Ágúst.

Leikur Vals og Hauka verður í beinni útsendingu úr Víkinni á Stöð 2 Sport 2 á laugardaginn og hefst útsendingin klukkan 13:20.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×