Fótbolti

Lars Lagerbäck missir báða framherjana sem spila í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Vísir/Getty
Það eru forföll í norska landsliðshópnum hans Lars Lagerbäck fyrir vináttulandsleiki á móti Ástralíu og Albaníu seinna í þessum mánuði.

Fyrrum landsliðsþjálfari Íslendinga er enn upptekinn við að reyna að koma norska landsliðinu aftur í hóp betri knattspyrnulandsliða Evrópu.

Lars Lagerbäck var búinn að velja sóknarmennina Joshua King og Alexander Sörloth í hópinn sinn en þeir spila báðir í ensku úrvalsdeildinni og eru framtíðar framherjapar norska landsliðsins.

Þeir King og Sörloth hafa nú báðir afboðað sig frá komandi verkefni og Lars Lagerbäck hefur valið í staðinn þá Ola Kamara frá LA Galaxy og Fredrik Gulbrandsen frá Red Bull Salzburg.





Alexander Sörloth gat ekki spilað með Crystal Palace á móti Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni um helgina en Joshua King spilaði hinsvegar allan leikinn með Bournemouth á móti West Bromwich Albion á laugardaginn.

Sörloth er að glíma við vöðvatognun ef marka má orð knattspyrnustjórans Roy Hodgson. Hann meiddist á æfingu liðsins síðastliðinn fimmtudag og náði sér ekki fyrir leik helgarinnar.

Joshua King hefur verið að glíma við meiðsli allt þetta tímabil og menn vilja augljóslega ekki taka neina áhættu með hann.

Joshua King er 26 ára og hefur skorað 10 mörk í 31 leik fyrir Noreg. Á þessu tímabili hefur hann skorað 4 mörk í 26 deildarleikjum með Bournemouth.

Alexander Sörloth er fjórum árum yngri og hefur skorað eitt mark í tólf landsleikjum. Hann á enn eftir að skora fyrir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en félagið keypti hann fyrir níu milljónir punda frá FC Midtjylland í lok janúar.

Norska landsliðið mætir Ástralíu í Noregi á föstudag en heimsækir síðan Albaníu á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×