Skoðun

1.mars – Afmæli bjórsins og gæludýr í Strætó

Guðmundur Heiðar Helgason skrifar
Árið 2015 flutti undirritaður til Englands ásamt kærustu sinni til þess að stunda nám. Í kringum stúdentagarðana okkar var hverfispöbb sem við kunnum vel við og fórum reglulega á. Fyrsta kvöldið á pöbbinum þá rákum við Íslendingarnir upp stór augu þegar við sáum tvo hunda ganga inn á staðinn ásamt eigendum sínum. Eigendurnir pöntuðu sér kaldan bjór og fengu sér sæti með hundana við hliðina á sér og enginn gerði athugasemd við það. „Hver í ósköpunum tekur hund með sér á bar?“ hugsaði ég.  Hundar ættu að vera geymdir heima hjá sér eða í mesta lagi bundnir við staur fyrir utan pöbbinn!

Ég lærði fljótlega að Englendingar voru mikil hundaþjóð. Í hvert skipti sem við fórum í göngu um hverfið eða nutum góða veðursins í almenningsgörðunum þá virtust hundar vera sýnilegir alls staðar. Viðvera hundanna á pöbbinum eða á kaffihúsum vandist hins vegar fljótt og maður hætti hreinlega að taka eftir þeim. Enginn var bitinn, það voru engin læti í dýrunum og enginn virtist kvarta yfir slæmu ofnæmi.

Gæludýr í almenningssamgöngum?

Í ljósi þess hve Englendingar eru hrifnir af hundum þá mætti búast við því að breskar almenningssamgöngur væru stútfullar af dýrum – raunin er hins vegar önnur. Undirritaður tók lest eða strætó í flest skipti sem ferðast var á milli staða. Yfir þetta ár sem ég bjó í Lundúnum þá varð ég þrisvar sinnum var við hund um borð í almenningsvögnum. Eitt skipti í strætisvagni og tvö skipti um borð í lest. Svipaða sögu er einnig að finna hjá öðrum þjóðum. Samkvæmt finnskri rannsókn sem framkvæmd var árið 2000 kom fram að af þeim 687,000 manns sem notuðu almenningssamgöngur í Helsinki daglega, þá voru einungis 0,13% farþega með gæludýr. Líkleg skýring á þessum litla fjölda er sú að stór hluti íbúa nota almenningssamgöngur til og frá vinnu eða skóla og dýrin eru skilin eftir heima. Töluvert líklegra er því að rekast á hund inn á pöbb heldur en í strætisvagni.

Hvað með ofnæmi?

Í umræðunni um gæludýr í Strætó hefur mikið borið á ótta við ofnæmi að völdum hunda eða katta. Farþegar með slæmt ofnæmi eru eðlilega smeykir fyrir því að deila vagninum með gæludýrum, en mun hættan á ofnæmisviðbrögðum aukast mikið þegar gæludýr verða leyfð í Strætó?

Í fyrrnefndri finnskri rannsókn voru tekin sýni úr sætum lesta og strætisvagna í Helsinki og styrkur ofnæmisvaka mældur. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hunda og katta ofnæmisvakar voru til staðar í lestum og strætisvögnum í Helsinki. Styrkur þeirra var hins vegar flokkaður sem lár- eða meðalhár og myndi aðeins kalla fram ofnæmiseinkenni hjá næmum einstaklingum. Styrkur ofnæmisvaka mældist líka minni þegar vagnar voru þrifnir í samanburði við þá vagna sem voru óþrifnir.

Rannsakendur bentu einnig á að í ljósi þess hve fá dýr voru um borð í vögnunum í Helsinki og að stór hluti ofnæmisvaka kæmi úr fatnaði gæludýraeigenda, þá myndi bann við gæludýrum aðeins minnka styrk ofnæmisvaka lítillega. Umsögn frá Embætti Landlæknis er á svipuðum nótum: „..þau faglegu rök sem mæla á móti flutningi dýra í almenningssamgöngutækjum sé hætta á ofnæmisviðbrögðum meðal farþega, hræðsla einstaklinga við dýr og svo líkur á biti frá dýrum. Á hinn bóginn séu líkur á ofnæmisviðbrögðum einnig töluverðar af völdum eigenda dýra við samgang við viðkvæma einstaklinga þó dýrin séu ekki til staðar.“  

Hvernig mun þetta ganga upp á Íslandi?

Flestir farþegar sem nota Strætó til og frá vinnu munu ekki verða varir við dýr um borð þar sem þau verða bönnuð í Strætó á háannatímum. Tilraunaverkefni Strætó fylgir einnig fleiri strangar kröfur sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið setur. Dýr skulu einungis vera í aftari hluta vagnanna. Gæludýr skulu vera í töskum eða lokuðum búrum sem tryggja að dýr geti ekki sloppið út. Búr eiga að vera vel skorðuð og geymd í kjöltu ábyrgðaraðila eða á gólfi við fætur hans. Heimilt verður að ferðast með hund í hálsól eða beisli og stuttum taumi sem er og þeir mega ekki vera í útdraganlegum taumi. Vagnarnir skulu einnig vera þrifnir á hverju kvöldi.

„Íslendingar kunna ekkert að ala upp dýr“. „Er þetta brýnasta málið í samgöngum?“ „Hvað með þá sem eru með ofnæmi?“ Þetta eru setningar sem hafa hljómað reglulega þegar rætt er um gæludýr í strætisvögnum. Þrátt fyrir að afnám bjórbannsins og gæludýr í almenningssamgöngum séu ótengd mál, með 29 ár sín á milli, þá má greina sambærilega orðræðu og tortryggni sem gjarnan fylgir breytingum og nýjungum. Við höfum nú þegar leyft gæludýr á veitingastöðum og kaffihúsum og að minni bestu vitund hefur það gengið áfallalaust fyrir sig. Allar líkur eru á að strætóferðir með gæludýrum muni einnig ganga áfallalaust fyrir sig og miðað við reynslu annarra þjóða þá ættu dýr að vera sjaldséðir ferðafélagar í Strætó.

Þrátt fyrir tortryggni og hræðslu við lögleiðingu bjórsins á sínum tíma, þá hefur bjórmenningin á Íslandi hefur þróast ótrúlega yfir síðastliðin 29 ár. Mun breytingin 1.mars árið 2018 verða upphafið að breyttri gæludýramenningu? Tíminn mun leiða það í ljós.

Gleðilegan bjór- og gæludýradag.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Strætó.




Skoðun

Sjá meira


×