Enski boltinn

Fyrirliði Manchester City býst við erfiðasta leik tímabilsins í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany fagnar sigrinum á Arsenal um síðustu helgi.
Vincent Kompany fagnar sigrinum á Arsenal um síðustu helgi. Vísir/Getty
Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City og besti leikmaður liðsins í sigrinum á Arsenal í úrslitaleik enska deildabikarsins um síðustu helgi, á von á mjög erfiðum leik á móti Arsenal í kvöld.

Manchester City liðið vann sannfærandi 3-0 sigur á Arsenal í úrslitaleiknum á sunnudaginn en liðin mætast aftur í úrvalsdeildinni í kvöld.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur verið harðlega gagnrýndur eftir leikinn og það er enginn vafi á því að Arsenal menn eru særðir eftir vandræðalega frammistöðu á Wembley leikvanginum.

„Ég held að leikurinn á móti Arsenal verði erfiðasti leikurinn okkar á tímabilinu vegna þess sem á undan hefur gerst. Við verðum því að vera tilbúnir í það,“ sagði Vincent Kompany í viðtali við Sky Sports.





„Við getum ekkert litið framhjá því að það eru miklir hæfileikar í þeirra liði og leikmennirnir eru særðir. Við höfum líka allir verið einhvern tímann í slíkri stöðu á ferlinum þegar allir eru að stökkva upp á vagninn þinn,“ sagði Kompany sem hefur greinilega áhyggjur af sínu liði.

„Þeir gætu breytt mörgu hjá sér með því að spila vel í kvöld þannig að þetta er hættulegur leikur. Ef við slökum á um tíu eða fimmtán prósent þá vitum við hvað getur gerst,“ sagði Kompany.

„Ég man sjálfur eftir því þegar við unnum Liverpool í úrslitaleik og vorum síðan flengdir í deildarleik liðanna fjórum dögum síðar. Við verðum að halda einbeitingu og undirbúa okkur fyrir erfiðan leik,“ sagði Kompany.





Þetta gerðist árið 2016. Manchester City vann úrslitaleik deildabikarsins í vítakeppni 28. febrúar 2016 en Liverpool vann aftur á móti deildarleik liðanna 3-0 2. mars 2016 með mörkum frá Adam Lallana, James Milner og Roberto Firmino.  

Manchester City er þegar búið að vinna einn titil á tímabilinu og nær sextán stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni með sigri í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×