Skoðun

Einstakt tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki

Inga Hlín Pálsdóttir skrifar
Ímynd lands skiptir miklu máli og gefur haft áhrif á það hvort fólk hafi áhuga á því að heimsækja landið, eiga viðskipti, fjárfesta eða búa.

Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði til dæmis talsverð áhrif á ímynd Íslands. Það vakti áhuga margra, en því má ekki gleyma að það vakti líka ótta t.d. fjárfesta og annarra sem eiga hér viðskipti. Á þeim tíma tókum við höndum saman og kynntum landið með stærsta samstarfsverkefni sem orðið hefur til í íslenskri ferðaþjónustu. Síðan höfum við haldið áfram að vinna saman að því að kynna Ísland og nú viljum við víkka það samstarf til fleiri aðila í atvinnulífinu.

Með frammistöðu sinni á EM í knattspyrnu karla 2016 komst Ísland í hámæli. Leitarfyrirspurnir um landið ruku upp í tengslum við áfangastaðinn og yfir 150 þúsund blaðagreinar voru skrifaðar um íslenska knattspyrnu, land og þjóð á meðan mótinu stóð.

Íslandsstofa vinnur nú að því að ýta úr vör tímamóta markaðs- og kynningarverkefni, sem á að nýta þann mikla meðbyr sem líklegt er að landið njóti í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Við höfum lært að athyglin verður ekki bara á knattspyrnuliðinu heldur einnig á þessu litla landi sem komst þangað. Spurningunum rignir yfir – s.s. hvernig tókst ykkur þetta, hver eru þið, hvað standið þið fyrir, hvernig ferðamannastaður er Ísland, hvað seljið þið? Við höfum þarna tækifæri til þess að koma okkar skilaboðum á framfæri og skapa fókus fyrir kynningu á landi og þjóð.

Verkefnið verður unnið undir merkjum Inspired by Iceland og keyrt á völdum mörkuðum í samráði við helstu hagsmunaaðila og stjórnvöld. Tilgangurinn er að auka vitund um Ísland sem góðan stað til þess að heimsækja, sem uppruna gæða í matvælum, vörum og framleiðslu og tilvalinn stað til að fjárfesta og stunda viðskipti. Ætlunin er að nýta þær öflugu boðleiðir sem Íslandsstofa hefur unnið að síðustu ár s.s. með almannatengslum, fjölmiðaferðum, samfélagsmiðlum, auglýsingum, sýningum og viðskiptasendinefndum og tengslastarfi.

Það er mikill ávinningur af því að íslensk fyrirtæki og stjórnvöld vinni saman að því að styrkja ímynd og orðspor Íslands. Þannig næst slagkraftur í samkeppni við aðrar þjóðir og tækifæri til markvissrar markaðssóknar gagnvart markhópi sem sýnir Íslandi áhuga. Síðustu ár hefur verið lögð mikil vinna í að segja söguna um áfangastaðinn Ísland. Nú er tækifæri til þess að segja enn fleiri sögur á víðari grundvelli. Ætlar þitt fyrirtæki að taka þátt?

Höfundur er forstöðumaður hjá Íslandsstofu.




Skoðun

Sjá meira


×