Lífið

Hef ekki uppskrift að vinsældum

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
„Ég er oft spurð að því hvernig eigi að slá í gegn á Snapchat. Boltinn fór að rúlla hjá mér þegar ég var ég sjálf, hreinskilin og heiðarleg,“ segir Camilla Rut.
„Ég er oft spurð að því hvernig eigi að slá í gegn á Snapchat. Boltinn fór að rúlla hjá mér þegar ég var ég sjálf, hreinskilin og heiðarleg,“ segir Camilla Rut.
„Ég byrjaði á Snapchat þegar ég var að koma mér upp úr fæðingarþunglyndi og rífa mig í gang. Ég talaði opinskátt um það ferli á Snapchat og fékk rosalega mikil viðbrögð við því. Margir höfðu samband og þökkuðu mér sérstaklega fyrir hreinskilnina. Á þessum tíma fannst mér vanta umræðu um þetta málefni og þótt ég ætlaði ekkert endilega að opna hana langaði mig að segja frá minni leið til betri heilsu,“ segir Camilla Rut um upphaf þess að hún varð þekkt andlit á Snapchat.

„Þegar ég fékk svona mikil viðbrögð áttaði ég mig á því hvað fæðingarþunglyndi er í raun algengt og fann að fólki þótti vænt um að ég talaði um hluti sem kannski eru feimnismál. Mörgum finnst þeir vera einir með sína vanlíðan. Núna tala ég um alls konar mál sem eru mér hugleikin. Ég er með aukakíló og appelsínuhúð og er t.d. ekkert feimin við að tala um það. Við erum jú öll mannleg,“ segir Camilla og brosir en rúm tvö ár eru frá því að hún tók þetta skref. „Ég nota nafnið camyklikk og grunaði ekki að það yrði viðurnefni mitt upp frá því. Þá hefði ég kannski valið eitthvað annað. En þetta er þó grípandi,“ segir hún og skellihlær.

Engin sérstök uppskrift

Margir reyna fyrir sér á samfélagsmiðlum í von um að verða þekkt andlit en Camilla segist ekki hafa neina sérstaka uppskrift að vinsældum. „Ég er oft spurð að því hvernig eigi að slá í gegn á Snap­chat. Boltinn hjá mér fór að rúlla þegar ég var ég sjálf, hreinskilin og heiðarleg. Fólk kann að meta það. Líklega spyrst þetta út. Þegar fylgjendahópurinn var kominn yfir tíu þúsund manns fór ég ósjálfrátt að verða miklu meðvitaðri um hvað ég var að segja á snappinu. Ég varð svo að ýta því frá mér því ég vil ekki leika neinn annan en ég er,“ segir Camilla.



Komstu fram á réttum á tíma?

„Já, ég held að það hafi verið aðalmálið. Núna hafa margir bæst í hóp þeirra sem eru með opið Snapchat og flóran er fjölbreytt. Ég er líka áhorfandi og fylgist með sumum sem eru með þúsundir fylgjenda en líka öðrum sem eru með fáa en svo eru það alls ekki fylgjendatölurnar sem skipta máli í lífinu,“ segir Camilla.

„Rafn, maðurinn minn, að spila á píanó, ég að syngja og foreldrar mínir í bakröddum hjá mér.“

Dýrmætt að hafa áheyrendahóp

Um daginn ákvað Camilla að loka fyrir skilaboð frá fylgjendum á Snapchat því henni fannst þau hafa of mikil áhrif á sig. „Mér finnst dýrmætt að hafa stóran áheyrendahóp og þykir vænt um að fá viðbrögð frá honum. Hins vegar senda sumir eitthvað í flýti eða hugsunarleysi, t.d. ábendingar um hvernig ég eigi að vera og hvað ég eigi að segja. Mér finnst allra best að fá skilaboð á Facebook eða Instagram þar sem fólk kemur undir eigin nafni og ég sé þá manneskjuna sem er að skrifa mér.“

Innt eftir því hvort hún ákveði sérstaklega hvað hún tali um eða sýni hverju sinni segir hún svo ekki vera. „Ég snappa bara þegar mér finnst ég hafa eitthvað að segja og vil ekki vera tilgerðarleg. Ég er í samstarfi við mörg fyrirtæki en ég stilli þeim upp eftir því hvað er að gerast í mínu daglega lífi. Ég fæ margar beiðnir og fjölda fyrirspurna um samstarf en ég vanda valið og neita mörgum. Núorðið sér umboðsskrifstofan Eylenda um mín mál, gerir samninga við fyrirtæki og slíkt. Það er mjög þægilegt,“ segir Camilla brosandi.

„Margir halda að ég sýni frá öllu í mínu lífi en það er margt sem fólk veit ekki um mig og ég tala ekki um. Fáir vita t.d. að við hjónin gætum mögulega þurft á aðstoð að halda ef við ætlum okkur að eiga fleiri börn. Ég var heppin að geta orðið ólétt að Gabríel en við vitum ekki hvað gerist ef við hyggjum á frekari barneignir,“ segir hún alvarleg í bragði.

Spurð hvort hún finni fyrir því að vera þekkt andlit segist Camilla ekki geta neitað því. „Já, margir koma til mín og segja að það sé gaman að sjá mig í alvörunni. Sumir fá að taka mynd af sér með mér en svo eru aðrir sem horfa bara á mig. En ég býð upp á þetta og finnst mjög gaman að hitta þá sem fylgjast með mér.“



Vissi að hann var sá rétti

Camilla er gift Rafni Hlíðkvist Björgvinssyni og Gabríel sonur þeirra er þriggja ára. Hún verður tuttugu og fjögurra ára á árinu en segist vera gömul sál. „Ég hef alltaf átt eldri vini og Rafn er fimm árum eldri en ég. Vissulega er ég ung en við eigum tíu ára sambandsafmæli í desember. Um leið og við kynntumst vissi ég að hann væri sá rétti,“ segir hún glöð í bragði.

Dagsdaglega vinnur Camilla sem þjónustustjóri á bílaleigu en í apríl snýr hún sér að öðrum verkefnum sem tengjast því skemmtilegasta sem hún gerir, söng og tónlist. „Ég mun taka þátt í sýningunni Moulin Rouge eða Rauðu myllunni í Eldborg í Hörpu þann 21. apríl og svo í Hofi á Akureyri nokkrum dögum síðar. Ég er ein af röddunum en það verður kannski eitthvað auka sem ég tek að mér í þessum sýningum. Ég er alin upp í gospelinu og finnst ótrúlega dýrmætt að eiga tónlistina, hún gefur mér mikið. Það er sérstaklega góð reynsla að vera með í stórum sýningum, enda finnst mér geggjað að vera á sviði og syngja,“ segir Camilla sem er af miklu tónlistarfólki komin og náfrænka hins vinsæla söngvara Páls Rósinkrans.

„Við Rafn höfum verið saman í tónlistinni og komum oft fram í brúðkaupum og veislum. Ég hef líka sungið í jarðarförum en ég finn svo mikið til með öðru fólki að mér finnst það erfitt. Það er eitt af því erfiðasta sem ég hef gert,“ upplýsir hún.

Fram undan eru spennandi tímar. Camilla ætlar þó að njóta þess að vera í fríi í sumar með syni sínum en hún hefur aldrei á ævi sinni tekið sumarfrí. „Við erum líka á kafi í flutningum. Við seldum íbúðina okkar og höfum keypt okkur hús í Reykjanesbæ. Það er enn í byggingu en í millitíðinni fáum við að búa hjá ættingjum og vinum. Ég á örugglega eftir að sýna snap frá flutningunum. Ég ætla að halda áfram að snappa svo lengi sem ég hef gaman af því. Um leið og ég vakna og finn að það er orðið leiðinlegt hætti ég því,“ segir Camilla Rut að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×