Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - KR 105-80 │ Fjórfaldir Íslandsmeistarar rassskelltir í Síkinu

Hákon Ingi Rafnsson skrifar
Úr fyrri leik liðanna sem KR-ingar unnu með látum í Vesturbænum í desember
Úr fyrri leik liðanna sem KR-ingar unnu með látum í Vesturbænum í desember vísir
Tindastóll vann stórsigur á KR í 20. Umferð Domino´s deildarinnar. Tindastóll komst upp í 2 sæti með sigrunum í kvöld og eru þar af leiðandi vel staðsettir fyrir úrslitakeppnina.

 

Leikurinn byrjaði hnífjafn og KR voru með yfirhöndina um miðjan leikhlutann en þá duttu heimamenn loks í gang og komu sér í 8 stiga forystu rétt fyrir lok leikhlutans, 29-21.

Í byrjun annars leikhlutans voru liðin hreinlega að spila klaufalegan körfubolta og ekki að setja skotin sín. Heimamenn duttu þó í gang og settu niður töluvert af þristum til að auka forystuna fyrir seinni hálfleikinn. Hálfleikstölur voru 48-37.

Í þriðja leikhluta byrjuðu heimamenn mjög sterkt og þegar 4 mínútur voru liðnar af honum var Tindastóll komið í 64-44 forystu og þeir virtust vera óstoppandi. Þegar heimamenn voru komnir með 24 stiga forystu datt Brynjar Þór leikmaður KR í gang og setti niður þrjá þrista til að minnka muninn og koma KR í betri stöðu fyrir loka leikhlutann. Staðan var 77-57 eftir 3 leikhluta.

Í fjórða leikhluta hélt KR áfram að saxa á forystu Tindastóls og náðu henni niður í 15 stig en þá gáfu heimamenn aftur í og nær komust ekki gestirnir. Lokatölur voru 105-80.

 

Afhverju vann Tindastóll?

Tindastóll voru mikið stöðugri í spilamennsku og börðust út allan leikinn, KR tók hinsvegar góða spretti en misstu það alltaf niður. Tindastóll voru líka mest allan leikinn grimmari í fráköstin og fengu þess vegna fleiri tækifæri til að í hverri sókn.

Hverjir stóðu upp úr?

Antonio Hester var frábær í leiknum í kvöld, hann tætti KR vörnina í sig, sama hversu margir komu í hjálpina. Hester var með 24 stig og 9 fráköst.

Kristófer Acox var besti leikmaður KR í kvöld með 19 stig og 12 fráköst. Hann var alveg að bera KR liðið á öxlum sér.

Hvað gekk illa?

Samtals voru liðin með 34 tapaða bolta en það var oftast vegna skelfilegra sendinga.

Hvað gerist næst?

KR fær Hött til sín og það er algjör skyldusigur fyrir KR ef að þeir ætla að komast ofar í deildinni.

Tindastóll heimsækir Njarðvík í erfiðan leik.

Jón Arnór: Ég er ekki að fara horfa í neinn spegil

„Þetta var skagfirsk flening. Við gerðum ekkert að því sem við ætluðum að gera í þessum leik,” sagði Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, eftir tapið í kvöld.

„Við ætluðum að sýna smá andlegan styrk, berjast fyrir hvorn annan og treysta hvor öðrum. Við gerðum ekkert að því. Við ætluðum ekki að stressa okkur yfir úrslitum sama hvernig færi.”

„Okkur langaði að líða vel eftir leikinn og það er ekki raunin. Við erum búnir að tapa þremur leikjum í röð og þrír erfiðir tapleikir. Við þurfum að rífa okkur upp og það eru tveir leikir núna eftir sem við þurfum að taka.”

„Það er mikið verk framundan og mér líst ekkert á það hvernig við spiluðum í dag; bæði ég persónulega og liðið. Við lögðum upp með þetta að líða vel eftir leikinn og maður gerir það með því að leggja sig fram og geta horft í spegilinn og verið nokk sáttur.”

„Ég er ekki að fara horfa í neinn spegil og ég held að enginn af okkur sé að fara gera það. Við þurfum að girða okkur í brók og kafa mjög djúpt til þess að finna út úr því hvað er í gangi.”

„Við erum ekki að komast framhjá neinum. Þeir eru ekki að gera neitt nýtt. Við eigum að kunna að leysa þessa vörn hjá þeim sem er að stríða okkur. Það er lokað fyrir körfuna og við erum ekki að vinna fyrir hvorn annan.”

„Þetta er ekki að falla fyrir okkur í sókninni aðallega. Ég hef mestar áhyggjur af henni,” sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við íþróttadeild Vodafone eftir leikinn.

Sigtryggur Arnar: Sýndum að við getum unnið titil

„Það er mögnuð tilfinning. Það er alltaf gaman að spila hérna í Síkinu og sérstaklega þegar það gengur svona vel. Þá er það alveg geggjað.”

Þetta sagði Sigtryggur Arnar Björnsson aðspurður um hvernig tilfinning það hafi verið að byrja leikinn á tveimur þristum.

„Ég er nánast orðinn heill,” sagði hann þegar talið barst að meiðslum hans.

Sigtryggur snéri aftur eftir meiðsli í liði Stólanna og átti skínandi leik í þessu mikla bursti á fjórföldum Íslandsmeisturum KR.

„Þetta var sannfærandi sigur í kvöld og sýndum að það er enginn KR-grýla í okkur, hvað sem það nú var. Við sýndum það að við getum unnið titil í ár.”

„Það var bæði liðsvörn og ekki að gefa þeim neina opna þrista þótt að Brynjar hafi dottið í gírinn á tímapunkti. Geggjuð liðsvörn skóp þennan sigur,” sagði Sigtryggur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira