Erlent

Lífshættulegur stormur gengur yfir austanverð Bandaríkin

Kjartan Kjartansson skrifar
Í Massachusetts er varað við því að sjávarstaðan geti hækkað um allt að fjóra metra.
Í Massachusetts er varað við því að sjávarstaðan geti hækkað um allt að fjóra metra. Vísir/AFP
Spáð er hvassviðri, úrhellisrigningu og sjávarflóðum í miklum stormi sem gengur yfir norðaustanverð Bandaríkin. Um 80 milljónir manna búa á svæðunum þar sem áhrifa stormsins gætir. Bandaríska veðurstofan varar við því fólk á austurströndinni geti verið í lífshættu.

Kröpp lægðin er þegar gengin á land á austurströndinni. Fleiri en tvö þúsund flugferðum hefur verið aflýst vegna veðurs.

Stormviðvaranir eru í gildi allt frá Maine í norðri til Virginíu í suðri. Meira en þrjátíu sentímetra snjókoma féll í New York í gærkvöldi og úrhellisrigningu er spáð allt frá New Jersey til Massachusetts í dag. Versta veðrið á að vera við strandlengju Massachusetts. Spáð er allt að 30 m/s á nokkrum stöðum nærri Þorskhöfða, að því er segir í frétt Washington Post.

„Takið storminn alvarlega! Þessa er spurning um LÍF OG DAUÐA fyrir þá sem búa við ströndina, sérstaklega strandlengjuna við sjóinn,“ tísti Veðurstofa Bandaríkjanna.

Sérstök flóðahætta er í Massachusetts þar sem töluverð flóð urðu í stormi í janúar. Varað hefur verið við einstaklega hárri sjávarstöðu þar næstu daga með hættu á sjávarflóðum.

„Ef þú býrð á svæði þar sem fólki er sagt að hafa sig á brott hvetjum við þig eindregið til að gera það strax á föstudagsmorgun. Með því að sitja heima á flóðasvæðum setur þú sjálfan þig og viðbragðsaðila í hættu,“ tísti Charlie Baker, ríkisstjóri Massachusetts í gær.

Vesturströndin sleppur ekki við vetrarríkið. Varað er við skyndiflóðum og aurskriðum í stormi sem er spáð í Suður-Kaliforníu. Þá er búist við 1-2 metra snjókomu í fjöllum Norður-Kaliforníu, að sögn CNN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×