Erlent

Ein og hálf milljón mörgæsa „í felum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Loftmynd af einni mörgæsabyggðinni. Svörtu dílarnir eru mörgæsir.
Loftmynd af einni mörgæsabyggðinni. Svörtu dílarnir eru mörgæsir.
Vísindamenn hafa fundið áður óþekktar mörgæsabyggðir á afskekktum eyjum undan Suðurheimskautslandinu. Uppgötvunin þykir koma nokkuð á óvart.

Mörgæsabyggðin fannst á eyjaklasa sem nefnist Danger Islands. Eru það níu eyjar við nyrsta odda Suðurheimskautsskagans. Eru byggðirnar í þriðja og fjórða sæti yfir fjölmennustu Adelie-mörgæsabyggðum heimsins.

Adelie-mörgæsir eru ein af fimm mörgæsategundum sem finnast á Suðurheimsskautslandi verða þær um 70 sentimetrar að stærð og þrjú til sex kíló að þyngd.

Líkt og áður segir þykir uppgötvunin koma nokkuð á óvart en aðeins 100 kílómetrum vestan við eyjaklassann hefur Adelie-mörgæsum fækkað mjög vegna bráðnunar íss.

Vísindamenn frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi uppgötvuðu byggðirnar með hjálp gervihnattamynda en afar erfitt er að komast að eyjunum vegna mikils hafíss.

Í fyrstu héldu vísindamennirnir að um mistök væru að ræða en myndirnar gáfu til kynna mikinn fjölda mörgæsa. Eftir vettvangsferð, hausatalningu og nánari skoðun kom hinn mikli fjöldi í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×