Enski boltinn

Frammistaða Salah kemur Benitez ekki á óvart│Hefur fylgst með honum í mörg ár

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rafa Benítez heimsækir Anfield í dag
Rafa Benítez heimsækir Anfield í dag vísir/getty
Rafa Benitez kveðst hafa fylgst með Mohamed Salah í mörg ár og það kemur Spánverjanum ekki á óvart að litli Egyptinn sé að slá í gegn hjá Liverpool.

Salah hefur verið einn allra besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur og hann verður væntanlega í eldlínunni í dag þegar Liverpool fær Newcastle í heimsókn síðdegis.

Benitez þekkir hverja þúfu á Anfield eftir að hafa stýrt Liverpool við góðan orðstír um sex ára skeið frá 2004-2010. Hann þekkir einnig vel til aðalstjörnu Liverpool í dag og segist hafa fylgst með honum frá því að Salah var að stíga sín fyrstu skref í úrvalsdeildinni í heimalandinu.

,,Satt best að segja þekki ég hann mjög vel. Ég hef fylgst með honum lengi og löngu áður en hann kom fyrst til Englands. Ég á vin í Egyptalandi sem þekkir mjög vel til þar og við höfðum talað mikið um hann," segir Benitez.

,,Við megum samt ekki bara einblína á hann. Ef við gerum það losnar um Firmino, Sadio Mane og fleiri leikmenn. Liverpool eru mjög góðir í skyndisóknum. Þeir hafa mikinn hraða og mikla orku. Við verðum að passa okkur á því að hafa stjórn á þeim öllum, ekki bara Salah."

Leikur Liverpool og Newcastle hefst klukkan 17:30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×