Erlent

Berbrjósta mótmælandi truflaði Berlusconi á kjörstað

Þórdís Valsdóttir skrifar
Silvio Berlusconi kveðst ekki hafa séð konuna sem stökk upp á borð á kjörstað og hrópaði „Tími þinn er liðinn Berlusconi“.
Silvio Berlusconi kveðst ekki hafa séð konuna sem stökk upp á borð á kjörstað og hrópaði „Tími þinn er liðinn Berlusconi“. Vísir/afp
Mótmælandi náði óvænt að smygla sér inn á kjörstað í dag þegar Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu greiddi atkvæði í þingkosningum þar í landi. Konan var berbrjósta með áletrun á barmi sínum og hrópaði „Tími þinn er útrunninn. Tími þinn er liðinn Berlusconi!“. Mótmælandinn tilheyrir femínistahópnum Femen.

Berlusconi sagði að atvikinu loknu að konan hafi farið svo fljótt að hann hafi ekki fengið tækifæri til að sjá hana en konan stökk upp á borð, lyfti höndum og hrópaði að fyrrverandi forsætisráðherranum. Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum hér að neðan.

Á barmi konunnar segir „Berlusconi þú ert útrunninn“.Vísir/afp
Kjörstaðir í þingkosningunum á Ítalíu voru opnaðir í morgun en búist er við því að mið-hægri bandalag Berlusconi fái flest atkvæði. Engum einum flokki eða flokkabandalagi er spáð meirihluta þingsæta og óttast margir að erfitt verði að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum. Kosningin er sögð sú óútreiknanlegasta í Ítalíu um árabil.

Berlusconi hefur heitið því að nái kosningabandalag hans kjöri mun um það bil 600 þúsund innflytjendum, sem komið hafa ólöglega til Ítalíu, verða vísað úr landi.

Fleiri en 46 milljónir hafa kosningarétt í þingkosningunum, þar með taldir ítalskir ríkisborgarar sem greitt höfðu atkvæði utan kjörfundar. Kjörstaðir loka klukkan ellefu í kvöld á staðartíma og hafa borgaryfirvöld í Róm hvatt kjósendur til að mæta tímanlega á kjörstað vegna þess að langar raðir hafa myndast þar og á kjörstöðum um land allt.

Silvio Berlusconi, sem er 81 árs gamall, hefur gegnt embætti forsætisráðherra fjórum sinnum áður. Nái flokkur hans kjöri nú mun hann ekki geta gegnt embætti fyrr en á næsta ári vegna skattalagabrots sem hann var dæmdur fyrir árið 2012.

Fyrstu tölur eru væntanlegar snemma á morgun. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×