Skoðun

Einangrun karla með krabbamein

Dr. Ásgeir R. Helgason skrifar
Einn af hverjum 5 karl­mönnum yfir 50 ára aldri er til­finn­inga­lega ein­angr­aður og yfirgnæfandi meirihluti hinna, sem hafa ein­hvern til að deila erf­iðum til­finn­ingum með, deilir þeim aðeins með maka sín­um. Séu karl­menn ekki í föstu sam­bandi eru 70% þeirra alger­lega til­finn­inga­lega ein­angr­að­ir. Rannsóknir sýna að þessar tölur gilda um karlmenn almennt, einnig þá sem glíma við krabbamein.

Karlar með krabbamein nýta síður en konur þann sál­fé­lags­lega stuðn­ing sem býðst á sjúkrastofnunum. Þeir treysta aðal­lega á þann stuðn­ing sem þeir fá frá maka sín­um þegar þeir standa frammi fyrir erfiðleikum eða eru undir álagi. Það getur valdið viðbótarálagi hjá makanum, sem þarf bæði að styðja karlinn og glíma við eigin áhyggj­ur.

Á síð­ari árum hafa rannsóknir sýnt að námskeið virðast höfða betur til karlmanna en tilboð um stuðning. Framsetning skiptir máli. Klínísk reynsla sýnir hins vegar að karl­menn sem taka þátt í slíkum nám­skeiðum taka sál­fé­lags­legum stuðn­ingi vel. Þá skiptir meg­in­máli að fagaðilinn hafi lag á því að bjóða upp á slíkt sam­tal, án þess að þröngva því upp á við­kom­andi eða ganga of nærri honum.

Eitt af verkefnum Mottumarsátaksins í ár er að þróa karlagátt, vefsíðuna „Karlaklefann“ sem mætir þörfum karla á karllægan hátt. Þar verður meðal annars aðgangur að fræðsluefni fyrir karla, greiningarpróf varðandi ákvörðunartöku um skimun og meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli og vettvangur til að kynna starfsemi hópa. Þar verður einnig hægt að bóka tíma á námskeið og í ráðgjöf hjá fagfólki Krabbameinsfélagsins auk upplýsinga um einkenni, meðferðir og afleiðingar þeirra, um réttindamál og aðferðir sem reynst hafa vel.

Með því að kaupa Mottumarssokka til styrktar átakinu sýnir þú körlum stuðning í verki og stuðlar að því að Karlaklefinn verði opnaður sem fyrst og veiti karlmönnum upplýsingar og fræðslu um krabbamein sem sérsniðin er að þeirra þörfum.

Höfundur er fræðslufulltrúi Krabbameinsfélagsins




Skoðun

Sjá meira


×